133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

kröfur tryggingafélaga um upplýsingar.

172. mál
[18:11]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Fyrirspurn hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur varðar ákvæði í lögum um vátryggingarsamninga og ég tek þann kost að svara spurningunum tveimur sameiginlega.

Lög um vátryggingarsamninga gilda um viðskipti á frjálsum markaði. Þau gilda ekki um almannatryggingar né þær tryggingar sem lífeyrissjóðir kunna að bjóða félagsmönnum sínum. Á þessu tel ég rétt að hnykkja sérstaklega. Auk þess má nefna takmarkandi ákvæði um upplýsingagjöf í 82. gr. laga um vátryggingarsamninga svo og aðild Persónuverndar að einstökum málum.

Hin almenna regla í þeim löndum sem við miðum okkur við er sú að líftryggingafélögum er heimilt að krefjast upplýsinga um heilsu þess sem óskar persónutryggingar og heilsu nákominna ættingja til að félagið geti metið hvort auknar líkur séu á því að viðkomandi fái tiltekinn sjúkdóm. Bendi niðurstaða matsins til aukinnar áhættu tekur iðgjaldið mið af því og er hærra en ef viðkomandi áhættuþátt væri ekki að finna hjá vátryggðum. Raunar er það ein af grundvallarreglum vátryggingarreksturs að iðgjöld taki mið af vátryggðri áhættu.

Hlutdeild persónutrygginga af heildarvátryggingarmarkaðnum hér á landi hefur verið vaxandi hin síðari ár og er það ólíkt því sem áður var. Neytendur gera sér betur grein fyrir mikilvægi persónutrygginga og töluverð samkeppni hefur verið á milli innlendra og erlendra vátryggjenda á þessum markaði. Í ráðuneytinu hefur ekki komið sérstaklega til skoðunar að setja íslenskum líftryggingafélögum eða þeim erlendu félögum sem hér bjóða þjónustu þrengri skorður en félögum í samkeppnislöndum til að leggja mat á hina vátryggðu áhættu. Þröngar skorður á þessu sviði kunna enn fremur að leiða til aukins kostnaðar líftryggingafélaganna vegna endurtryggingarverndar og þar af leiðandi til hærri iðgjalda.

Svo ég dragi saman svarið tel ég ekki að bregðast þurfi við því að vátryggingartakar, sem metnir eru með aukna áhættu, greiði hærra iðgjald en þeir sem ekki eru taldir búa við þá áhættu. Um leið vísa ég aftur í takmarkandi ákvæði 82. gr. sem bæði ég og hv. þingmaður höfum áður nefnt. Það er ekki í ráði að vinna í ráðuneytinu að lagabreytingum sem setja líftryggingafélögum þrengri skorður um upplýsingaöflun en sambærileg fyrirtæki búa við í þeim löndum sem við berum okkur saman við.