133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

kröfur tryggingafélaga um upplýsingar.

172. mál
[18:18]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég held að það fari ekki á milli mála að þær ábendingar sem fyrirspyrjandi og hv. þm. Dagný Jónsdóttir hafa bent á eru gildar og málefnalegar og eiga rétt á sér. Ég vil benda á að ákvæði eru í gildandi lögum um málskot til svokallaðrar úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum. Ég bind miklar vonir við að sá vettvangur verði nýttur af þeim sem telja sig ekki fá þá þjónustu sem þeir telja sig eiga rétt á eða hafa lent í því að umsókn þeirra um persónutryggingu hafi t.d. verið hafnað.

Annað atriði sem rétt er að taka fram, og ég gerði reyndar ekki áðan, er að vinna er langt komin á vettvangi ráðuneytisins við frumvarp til að taka á álitamálum varðandi greinarmun á heilsufarsupplýsingum og upplýsingum sem kunna að vera fengnar úr erfðafræðirannsóknum.