133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

eldfjallagarður á Reykjanesi.

198. mál
[18:19]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Þann 7. september síðastliðinn hélt Landvernd málþing í Norræna húsinu þar sem samtökin kynntu framtíðarsýn sína um Reykjanesskagann sem eldfjallagarð og fólkvang.

Á málþinginu var fjallað um þá fjölmörgu möguleika sem svæðið hefur upp á að bjóða með tilliti til náttúruverndar, útivistar, ferðaþjónustu og einnig með tilliti til nýtingar jarðvarma og jarðhitaefna.

Þarna talaði sægur mætra framsögumanna og farið var vítt yfir sviðið og þessi framtíðarsýn Landverndar kynnt á afar greinargóðan hátt. En í henni kemur það fram að þau sjá fyrir sér að á Reykjanesskaganum, þar með talið Hengilssvæðið, frá Þingvallavatni út á Reykjanestá og Eldey, verði stofnaður eldfjallagarður og fólkvangur. En þetta yrði einhvers konar hálfmáni sem væri í seilingarfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu þar sem njóta mætti útivistar og sömuleiðis þar sem náttúruvísindamenn gætu stundað rannsóknir sínar og vernda mætti að stórum hluta þetta svæði ósnortið, enda er stór hluti þess, þ.e. aðallega Brennisteinsfjöllin, ósnortin í dag.

Fjölmörg náttúruvætti og minjar eru á náttúruminjaskrá innan þessa svæðis sem um ræðir og okkur er kunnugt um að Umhverfisstofnun sem setti fram fyrir tveimur árum hugmyndir sínar um náttúruverndaráætlun lagði ríka áherslu á að hér væri svæði þar sem verndarhagsmunir væru umtalsverðir.

En eins og okkur öllum er kunnugt stangast hagsmunir á. Hagsmunir orkufyrirtækjanna hafa stangast á við hagsmuni náttúruverndar og þess vegna er óvissa um hvort áform af því tagi sem Landvernd mundi vilja sjá framfylgt geti náð fram að ganga.

Nú er búið að sækja um rannsóknaleyfi á stórum hluta á Reykjanesskaga og í Brennisteinsfjöllum, bæði á röskuðu svæði og óröskuðu. Þess vegna tel ég að nauðsynlegt sé að við fáum að skiptast á skoðunum við hæstv. umhverfisráðherra og fá að sjá á hvern hátt hún hefur talað um þessi mál og hvaða afstöðu hún og ráðuneyti hennar hafi til þessarar framtíðarsýnar Landverndar.

Spurningar mínar eru á þingskjali í þremur liðum. Í fyrsta lagi hvernig brugðist hafi verið við hugmyndum Landverndar o.fl. um stofnun eldfjallagarðs á Reykjanesi? Í öðru lagi hvernig hugmyndin falli að tillögum Umhverfisstofnunar að náttúruverndaráætlun? Og í þriðja lagi hvort ráðherrann hyggist beita sér fyrir því að slíkur garður verði að veruleika?