133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

eldfjallagarður á Reykjanesi.

198. mál
[18:22]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir þessa fyrirspurn um eldfjallagarð á Reykjanesi. Þingmaðurinn spyr í fyrsta lagi:

„Hvernig hefur verið brugðist við hugmyndum Landverndar o.fl. um stofnun eldfjallagarðs á Reykjanesi?“

Þær hugmyndir sem Landvernd og aðrir aðilar hafa verið að ræða, m.a. á fundi sem haldinn var í Norræna húsinu 7. september, hafa ekki verið formlega kynntar umhverfisráðuneytinu. Að því er best verður séð hefur Landvernd ekki mótað slíkar hugmyndir eða fjallað um þær annars staðar eða lagt þær fram opinberlega. Hugmyndirnar voru ræddar á ráðstefnunni 7. september og ýmsir fræðimenn og hagsmunaaðilar fjölluðu um Reykjanesskagann.

Hv. þingmaður spyr síðan:

„Hvernig fellur hugmyndin að tillögu Umhverfisstofnunar að náttúruverndaráætlun?“

Náttúruverndaráætlunin 2004–2008 var samþykkt á Alþingi árið 2004 og Umhverfisstofnun í samvinnu við ráðuneytið hefur unnið að framkvæmd þeirrar áætlunar. Eitt svæði á Reykjanesskaganum er í náttúruverndaráætlun sem Alþingi samþykkti.

Í frumtillögum Umhverfisstofnunar að náttúruverndaráætlun var lagt til að sex svæði á Reykjanesskaganum yrðu tekin inn í áætlunina auk þriggja svæða í nágrenni hans.

Hugmyndir að eldfjallagarði sem næði til alls Reykjanesskagans og Þingvallasvæðisins ganga því nokkuð lengra en tillögur stofnunarinnar. Að öðru leyti má segja að hugmyndir um eldfjallagarð samrýmist vel tillögum stofnunarinnar.

Hv. þingmaður spyr að endingu:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að slíkur garður verði að veruleika?“

Núgildandi náttúruverndaráætlun nær til ársins 2008 og felur í sér friðlýsingu 14 nýrra svæða á landinu. Eitt þessara svæða er Vatnajökulsþjóðgarður og gera tillögur ráð fyrir að hann nái þvert í gegnum landið og innan hans verði stór hluti austurgosbeltisins, bæði svæðið undir Vatnajökli og svæði vestan og norðan jökulsins. Megintilgangur stofnunar þjóðgarðsins er m.a. verndun eldfjalla og gosminja á svæðinu þar sem sérstaklega er litið til samspils, eldvirkni og jökla.

Það má því sem sanni segja að þessi þjóðgarður verði jökla- og eldfjallaþjóðgarður. Að mínum dómi hefur umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun umfangsmikil verkefni að vinna við framkvæmd náttúruverndaráætlunar út árið 2008. Ég mun því ekki leggja áherslu á að unnið verði að stofnun sérstaks eldfjallagarðs á Reykjanesskaganum á þeim tíma en tel sjálfsagt að þessi hugmynd verði skoðuð við gerð næstu náttúruverndaráætlunar sem er í vinnslu hjá Umhverfisstofnun og mun ná til áranna 2009–2013.