133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

ástandið í Palestínu.

[10:38]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Enn ein árásin hefur verið gerð á óbreytta borgara á hernumdu svæðunum í Ísrael. Í tæplega 60 ár hefur palestínska þjóðin verið á flótta. Í tæplega 40 ár hefur hernám Ísraela á Gaza og Vesturbakkanum staðið. Hér er í raun og veru ekkert nýtt á ferðinni. Ástandið verður alvarlegra og alvarlegra á meðan heimsbyggðin horfir á og með fullum stuðningi stórveldisins Bandaríkjanna, með fjárstuðningi og öðrum stuðningi mun Ísraelsstjórn halda uppi uppteknum hætti á meðan henni leyfist það. Með fullum stuðningi Bandaríkjastjórnar var ráðist inn í Líbanon í sumar, þar var allt sprengt í tætlur og m.a. notaðar klasasprengjur. Með fullum stuðningi Bandaríkjastjórnar ræðst ísraelski herinn aftur og aftur og aftur á palestínska borgara á hernumdu svæðunum í Ísrael.

Það þarf ekki bara að tala við sendiherra Ísraels á Íslandi. Það þarf að tala við sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi og ég legg til að hæstv. utanríkisráðherra gangi á fund sendiherrans á Laufásvegi og spyrji hversu lengi enn ríkisstjórn Bandaríkjanna ætli að styðja við stríðsrekstur Ísraelsstjórnar í Miðausturlöndum, hversu lengi enn þetta eigi að ganga yfir palestínsku þjóðina. Því á meðan við sitjum hjá eigum við hlutdeild í verknaðinum. Við höldum uppi stjórnmálasambandi við Ísrael og við höldum uppi góðu vinasambandi við Bandaríkjastjórn. Það er okkar að tala við þetta fólk og koma formlegum mótmælum til skila og ef mótmælin verða ekki tekin til greina þarf að staldra við og athuga hvað ríkisstjórn Íslands getur gert í framhaldinu.