133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

ástandið í Palestínu.

[10:43]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Öllu siðmenntuðu fólki hlýtur að blöskra fréttirnar sem við heyrum af framferði Ísraelsmanna sem gerðar hafa verið að umtalsefni. Innrásir Ísraela í Suður-Líbanon eins og við munum þær þar sem þeir tókust á við Hizbollah, vöktu heimsathygli og sérstaklega hin hörðu viðbrögð Ísraela sem voru allt of hörð miðað við það tilefni sem gefið var. Það má segja að framferði Ísraela á þessu svæði auki stöðugt á og bæti í hatur og örvæntingu sem ríkir á svæðinu og ekki að sjá miðað við síðustu fréttir að nokkur breyting sé þar á.

Á sama tíma og stríðið var í Suður-Líbanon gekk mikið á í Palestínu. Bæði var mikið um árásir og dráp á óbreyttum borgurum. Í skjóli þess stríðs voru forustumenn í heimastjórninni handteknir, þingmenn og ráðherrar, og má segja að Ísraelsmenn hafi farið fram í Palestínu á þeim tíma í skjóli þess að enn þá meira gekk á í Suður-Líbanon og heimsfréttirnar voru með linsurnar á því sem þar fór fram og þeir fóru sínu fram í Palestínu nánast óáreittir.

Við hljótum að þurfa að bregðast við og koma á framfæri mótmælum við svona hegðan. Þjóðir heims hljóta að þurfa að sameinast um að fordæma slíkt framferði og afsakanir fyrir því að hafa skotið á íbúablokkir að næturlagi duga skammt. Ég held að allir hljóti að sjá það. Það að afboða fund með sendiherra Ísraels held ég að sé rangt. Ég held að menn eigi að nota það tækifæri að sendiherrann kemur hingað og koma á framfæri mjög kröftuglegum mótmælum, tala tæpitungulaust við sendiherra Ísraels um að öllu siðmenntuðu fólki blöskri svona framferði því að segja ekki neitt er verra.