133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

ástandið í Palestínu.

[10:47]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem upp til að taka undir ýmislegt af því sem hér hefur verið sagt. Mér finnst fyrst og fremst að Íslendingar beri að sínu leyti kannski meiri ábyrgð en margar aðrar þjóðir á þessu ástandi þarna. Við tókum eins konar forustu og menn hældu sér af því árum saman að Ísland hefði tekið forustu fyrir því að Ísraelsríki var stofnað, og Vesturlönd gengust fyrir stofnun þessa ríkis. Gott og vel, það var gert. En þess vegna bera Vesturlönd, og alveg sérstaklega Íslendingar að mér finnst, ábyrgð á ástandinu þarna. Íslendingar telja sig þess umkomna að komast inn í öryggisráðið og telja sig eiga þangað erindi. Ég tel að Íslendingar eigi að sanna það með því að taka forustu um það, sýna fram á að þeir eigi erindi í öryggisráðið, með því að láta til sín taka á alþjóðavettvangi í þessu máli, alveg sérstaklega vegna þeirra ábyrgða sem þeir tóku á sig á sínum tíma og hældu sér af fram eftir árum.

Menn hafa að vísu ekki gert það alveg síðustu árin vegna framferðis Ísraelsmanna og hörku við þá sem hraktir voru af landsvæðum sem þeir nú búa á. Það er yfirgengilegt að sjá hvernig Ísraelsmenn komast upp með hryðjuverk í skjóli Bandaríkjamanna, t.d. eru klasaprengjurnar sem finnast þúsundum saman í Líbanon hryðjuverkaverkfæri. Þær granda fólki algjörlega án þess að nokkur viti hver fyrir þeim verður, alveg eins og í nótt sem leið þegar Ísraelsmenn skutu blindandi á íbúðarhúsabyggðir á Gaza-svæðinu. Þetta eru hryðjuverk og klasasprengjurnar eru hryðjuverkaverkfæri (Forseti hringir.) sem Ísraelsmenn dreifðu í Líbanon.