133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[14:48]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get svo sem lítið annað en endurtekið það sem ég hef áður sagt um málið. Það eru áhrifamiklir ráðamenn í stjórnmálum sem ráða því að töluverðu leyti, og hafa ráðið úrslitum um það hverjir hafa verið valdir í þetta embætti. Það ræðst á Alþingi milli þingflokkanna hvernig valið er í þetta embætti og hvort viðkomandi aðili heldur áfram embætti sínu þegar hann þarf á endurkjöri að halda. Ef menn sjá ekki að slíkur aðili sé háður stjórnvöldum eru þeir bara að binda fyrir augun á sér.

Síðan þegar dæmi sem ég hef farið vel í gegnum áður í ræðum á þinginu sanna það að ekki hafi verið tekið á málum með eðlilegum hætti hefur það veitt mér þá sannfæringu að ég tel ástæðu til þess að koma upp í ræðustól á Alþingi og benda mönnum á að það þurfi að fara yfir þetta mál með það fyrir augum að gera þessa annars mjög góðu stofnun enn þá betur færa um að sinna hlutverki sínu, gera henni kleift að sinna því með þeim hætti að enginn efist um að þar sé fullkomlega gætt hlutlægni í öllum vinnubrögðum. Það er ekki með þeim hætti núna.