133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[14:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við erum að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2005 og þau verkefni sem Ríkisendurskoðun tók að sér á því tímabili. Eitt af því var, eins og segir, að rannsaka hæfi Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, til þess að fjalla um sölu og hlut ríkisins í Búnaðarbankanum til S-hópsins.

Ég vék aðeins að þessu í ræðu minni, í fyrsta lagi að tilgreina hvert hlutverk Ríkisendurskoðunar væri og síðan sagði ég: Varðandi þetta verkefni ríkisendurskoðanda sem mig minnir að hann hafi tekið upp að eigin frumkvæði, a.m.k. ekki samkvæmt beiðni Alþingis eða einstakra þingmanna, ég minnist þess ekki, taldi ég að þarna hefði hann farið út fyrir verksvið sitt, mér þætti það miður, ég teldi að það hefði ekki verið rétt og að Ríkisendurskoðun hefði ekki átt að fjalla um hæfi ráðherra.

Enda segir einmitt í minnisblaði frá Ríkisendurskoðun og í skýrslunni um þetta mál, með leyfi forseta:

„Rétt þykir, áður en lengra er haldið, að taka fram að svar við spurningum um hæfi eða vanhæfi stjórnvaldshafa er lögfræðilegt álitaefni sem löggjafinn hefur alls ekki ætlað Ríkisendurskoðun að leysa úr.“

Ég tek undir þetta. Við erum ekki hér að tala um hvort Halldór Ásgrímsson hafi verið hæfur til að gera þetta eða ekki. Ég er hér að segja að ekki hafi verið rétt af Ríkisendurskoðun að gefa út einhvers konar vottorð um hæfi ráðherra til ákveðinna stjórnvaldsaðgerða, hvort sem það er í mjög umdeildum málum — eins og þarna var um að ræða og margir drógu mjög í efa að hann væri hæfur til þess — eða ekki. (Forseti hringir.) Það er ekki hlutverk Ríkisendurskoðunar.