133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[16:20]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessi reglugerð er að mínu mati mjög mikilvæg af því hún mildar innheimtu ofgreiddra bóta. Samkvæmt lögum eigum við að innheimta ofgreiddar bætur. Ríkisendurskoðun benti á það á sínum tíma að skoða þyrfti sérstaklega hvernig það er gert vegna þess að það var ákveðin handvömm í því hvernig var staðið að því. Menn skoðuðu það ekki svo vandlega á sínum tíma með bæturnar, hvort þær væru ofgreiddar eða vangreiddar.

Það kom í ljós í upphafi að við vorum á sínum tíma að ofgreiða um milljarð en einnig vangreiða um milljarð. Það gengur ekki upp. Maður á hvorki að ofgreiða né vangreiða. Það varð að setja miklu stífari umgjörð um það til að finna út eins fljótt og hægt væri hvað við ofgreiddum og hvað við vangreiddum. Það átti að laga það.

Versta staðan er sú, sem kom upp í upphafi, að stjórnvöld sáu frekar seint hvað verið var að ofgreiða. Það er erfitt að innheimta eftir á en okkur ber skylda til þess. Núna er búið að setja þessa reglugerð til að milda innheimtuna. Þar er miðað við að aldrei sé innheimt, af því hér var spurt sérstaklega út í tölur, meira en svo að viðkomandi hafi þá fjárhæð á mánuði sem talin er vera lágmarksframfærsluþörf hjá félagsmálaráðuneytinu. Það eru 88.873 kr. á mánuði.

Ég vil líka vekja athygli á að þetta mun kosta okkur talsverðar upphæðir. Við förum t.d. ekki í að innheimta það sem er undir 20 þús. kr. á mánuði. Það mun kosta í kringum 40 millj. kr. En við þurfum líka að styrkja verulega starfsemi Tryggingastofnunar til að geta þetta. Ég get kannski farið yfir það seinna í andsvari.