133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[17:31]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að frábiðja mér athugasemdir hv. þm. Jóns Gunnarssonar um félaga okkar hv. þm. Pétur Blöndal. Hann er jafnmikill talsmaður flokksins og ég í þessu máli sem öðrum hér á þinginu.

Til mín var varpað nokkrum spurningum og m.a. spurt hvort ég hafi orðið vör við óánægju eldri borgara eftir þetta samkomulag. Ég veit að hv. þm. Jón Gunnarsson hefur reynslu í að gera samkomulag og hann veit að það eru ekki alltaf allir ánægðir með það samkomulag sem gert er á hverjum tíma. Það birtist manni hins vegar þannig í fjölmiðlum þegar samkomulagið var undirritað að það væri sérstök ánægja meðal forsvarsmanna eldri borgara, Landssambands eldri borgara, á blaðamannafundinum þar sem samkomulagið var kynnt. Hún var mjög augljós. Annars komu líka fram eftir þann fund athugasemdir frá ýmsum aðilum sem vildu hafa farið öðruvísi að. Það er ekkert óvænt. Þegar samkomulag er gert um ákveðin atriði, hvort sem það er kjarasamningur eða samningur með öðrum hætti, bera menn miklar væntingar til þess og auðvitað vildu sumir hafa hlutina öðruvísi en samkomulag varð um. Samkomulag milli aðila byggist ekki á ýtrustu kröfum allra aðila heldur að farin er millileið.

Loks spyr hv. þingmaður hvort ég telji að taka megi frítekjumarkið upp fyrr en gert er ráð fyrir í þessu samkomulagi. Ég lýsti skoðunum mínum áðan að ég telji að í því felist ekki háar upphæðir miðað við samkomulagið í heild og tel að skoða megi ákveðinn tilflutning þar á. Með því er ég að lýsa mínum skoðunum.