133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[17:33]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar á því að hafa hælt hv. þm. Pétri Blöndal fyrir hófstilltan málflutning. Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir því að ástandið innan Sjálfstæðisflokksins væri svona viðkvæmt eftir prófkjörið sem þau áttust við í. Ég biðst bara velvirðingar á því að vera að ýta eitthvað við svona viðkvæmum málum innan flokks.

Eitt sem mig langar að spyrja varaformann hv. heilbrigðis- og trygginganefndar um er það sem ég spurði hæstv. ráðherra um áðan. Er hv. varaformaður heilbrigðis- og trygginganefndar tilbúin að beita sér fyrir því innan nefndarinnar að rædd verði samhliða þetta frumvarp til laga um breytingu á almannatryggingum og tillaga til þingsályktunar sem stjórnarandstaðan hefur lagt fram um nýja framtíðarskipan lífeyrismála? Það er afar mikilvægt að fá svar við þessu því að það skiptir máli þegar farið er í gegnum þessa umræðu að farið verði samtímis yfir sjónarmið stjórnarandstöðunnar og sjónarmið hæstv. ráðherra og stjórnarliða, vegna þess að um er að ræða málaflokk sem ekki er bara tölur, prósentur, krónur og aurar. Við erum að tala um málaflokk þar sem við tölum um fólk í hvert einasta skipti sem við ræðum þessi mál. Við megum aldrei gleyma því að þetta eru ekki bara lágmörk, tekjutengingar, frítekjur, prósentur o.s.frv. Á bak við hverja einustu tölu og hverja einustu setningu í almannatryggingalögunum er fólk sem treystir á að við sem í þessum sal sitjum tryggjum því ákveðin lágmarksréttindi. Þess vegna hlýtur það að vera krafa okkar í stjórnarandstöðunni að þegar þetta mál verður tekið fyrir og rætt, verði það rætt bæði út frá þeim sjónarmiðum sem við höfum lagt fram í þinginu ekki síður en sjónarmiðum hæstv. ráðherra og stjórnarliða.