133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[17:35]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að tala um neina viðkvæmni í þeim stjórnmálaflokki sem ég tilheyri, ég held að hann ætti að líta sér nær.

Hv. þingmaður varpaði þeirri spurningu til mín hvort ég mundi beita mér fyrir því að samhliða þessu frumvarpi verði rædd innan heilbrigðis- og trygginganefndar þingsályktunartillaga sem stjórnarandstaðan hefur lagt fram til breytingar á lífeyriskerfinu. Það kom fram í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að hún mundi beita sér fyrir því að sjónarmið stjórnarandstöðunnar kæmu fram í umræðum innan nefndarinnar. Hún lagði jafnframt áherslu á að stjórnarandstaðan mundi koma með breytingartillögu við frumvarpið þegar það kemur til 2. og jafnvel 3. umr. Ég hef því engar áhyggjur af því að sjónarmið stjórnarandstöðunnar, ef hún stendur sig í stykkinu, komi ekki fram á fundum nefndarinnar.

Við megum hins vegar ekki gleyma því að samkomulagið sem gert var við eldri borgara og birtist í því frumvarpi sem við fjöllum um núna, frumvarpi til laga um breytingu á almannatryggingalögum og lögum um málefni aldraðra, er stórt skref. Það kemur fram í athugasemdum við frumvarpið að verið er að auka verulega í þennan málaflokk. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2006 voru 32,2 milljarðar í þessum málaflokki en fyrir árið 2007 hefur þessi upphæð hækkað um 10 milljarða, þannig að við megum ekki gleyma því að þetta er stórt skref. Við skulum ekki vanmeta það sem vel er gert, það er alger óþarfi að tala það niður. Það er aldrei svo að allir séu ánægðir en þetta eru stór skref, grundvallarskref sem verið er að taka hér í þessum málaflokki.