133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

236. mál
[19:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Nokkur umræða er þegar orðin um það. Ég vil í upphafi minnast á nokkur atriði og halda til haga.

Ég ætla fyrst að víkja að 2. gr. frumvarpsins, þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„a. Við 1. málsl. bætist: og varðveislu viðkvæmra hafsvæða.

b. 2. málsl. hljóðar svo: Getur ráðherra með reglugerð m.a. ákveðið sérstök friðunarsvæði þar sem veiðar með öllum eða tilteknum veiðarfærum eru bannaðar.“

Þetta er síðan áréttað enn frekar í skýringum með greininni, þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hefði athyglin beinst í ríkari mæli að hafsbotninum sjálfum og lagði nefndin“ — sem hafði verið skipuð um þetta mál — „því til í skýrslu sinni að breytingar yrðu gerðar á heimild ráðherra þannig að verndun hafsbotnsins fengi meira vægi og rúmaðist betur innan lagaheimildarinnar. Með því móti mundi hún endurspegla skýrar markmið og inntak friðunar viðkvæmra hafsvæða.“

Þetta er nefnilega atriði sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt þunga áherslu á, verið einn af hornsteinum í sjálfbærri nýtingu náttúruauðlindanna, einnig í fiskveiðistefnunni, og því sem lýtur almennt að umhverfismálum og sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. Í því sambandi vil ég minna á, og það er eins og hæstv. ráðherra hafi reyndar bara kannski farið eftir þessu, og það er svo sem gott, að stundum þurfa mál, þó að þau komi frá stjórnarandstöðuþingmönnum, að fá að fara nokkrum sinnum í gegnum þingið til að ráðherrar átti sig á að það gæti verið eitthvað sem rétt væri að færa inn.

Þannig er að í þingsályktunartillögu sem flutt var á síðasta þingi og reyndar nokkrum þingum áður, fyrst á 128. löggjafarþingi og svo aftur á 130. og síðan á 131. þingi, er tillaga til þingsályktunar um vernd og sjálfbæra nýtingu lífvera á hafsbotni, þar sem flutningsmenn eru þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þingmenn Kolbrún Halldórsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Vil ég leyfa mér, forseti, að vitna til tillögunnar sem hefur verið flutt undanfarin ár og á reyndar forsögu í tillöguflutningi Hjörleifs Guttormssonar fyrr á þingum, sem lagði áherslu á að hugað væri með markvissum hætti að rannsóknum og verndun hafsbotnsins.

Tillaga þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra í samráði við Hafrannsóknastofnunina að friða í varúðarskyni þau svæði á hafsbotni sem brýnast er talið að vernda til að koma í veg fyrir meira tjón á lífríki og uppvaxtarskilyrðum nytjafiska en orðið er.

Jafnframt verði gerð áætlun um frekari rannsóknir á áhrifum veiða og veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins og um aðgerðir til að draga úr skaðlegum áhrifum af þeirra völdum og til að tryggja sjálfbæra nýtingu vistkerfa hafsbotnsins innan efnahagslögsögunnar.“

Áfram stendur í tillögunni, með leyfi forseta:

„Við undirbúning og meðferð málsins verði leitað eftir samvinnu við umhverfisráðherra, rannsóknastofnanir, hagsmunaaðila í sjávarútvegi og samtök áhugamanna eftir því sem við á.

Skorti á lagaheimildir til æskilegra verndaraðgerða og til að tryggja sjálfbæra nýtingu hafsbotnsins verði lagðar fyrir næsta löggjafarþing tillögur þar að lútandi, sem og skýrsla um framvindu verndaraðgerða og fjárþörf vegna æskilegra rannsókna.“

Nú veit ég ekki hvort það sem ráðherra er hér að flytja nær öllum þessum markmiðum sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggjum til í þessari tillögu en þó er það vonandi og væntanlega í áttina.

Í greinargerð með tillögunni sem flutt var á síðasta þingi og nokkrum þingum þar á undan segir, með leyfi forseta:

„Stöðugt fjölgar vísbendingum um tjón sem orðið hafi á lífríki hafsbotnsins við hömlulitla notkun botnveiðarfæra. Fyrir nokkrum árum sýndi sjónvarpið myndir sem drógu ljóslifandi fram áhrif veiða á kórallasamfélög á hafsbotni við Noreg. Slíkum gögnum hefur farið fjölgandi og þekkingu fleygt fram. Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg um sjálfbæra þróun sumarið 2002 voru m.a. á dagskrá málefni hafsbotnsins og gildi búsvæða hans, þar á meðal kórallasamfélaga, fyrir sjálfbæra þróun lífríkis sjávar. Þörf kerfisbundinna rannsókna á þessu sviði hefur blasað við lengi en allt of lítið verið að gert hérlendis. Á meðan frekari þekkingar er aflað er brýnt að gripið sé til varúðarráðstafana eins og tillagan gerir ráð fyrir og með hliðsjón af Ríó-yfirlýsingunni.“ Sem kveður einmitt á um varúðarsjónarmiðin.

Þá komum við að þeim þætti að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum ítrekað lagt áherslu á eflingu rannsókna einmitt á hafsbotninum, á stöðu og áhrif veiðarfæra á hafsbotninn og lífríki hans. Þó að nokkuð hafi áunnist og verið gert í þeim efnum er það allt of lítið, bæði hvað varðar hafsbotninn sem slíkan og hvernig hann hefur breyst í áranna rás í kjölfar veiða. Einnig eru rannsóknir litlar á veiðarfærum sem enn eru notuð og við vitum engin glögg deili á hver áhrif hafa á lífríkið.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson minntist á flottrollsveiðarnar, en botnvarpan hefur líka verið mjög gagnrýnd og hefur meira að segja verið talið að þar sem aðstæður væru þannig, viðkvæmur botn, gæti hún valdið miklu tjóni.

Ég vil því spyrja ráðherra hvernig hann ætlar sér að afla forsendna fyrir því að fylgja þessari tillögugrein sinni eftir, að geta beitt lokunum og friðað svæði á faglegum forsendum. Auðvitað hefur hann líka rétt til að friða svæði á grundvelli Ríó-yfirlýsingarinnar um að náttúran skuli njóta vafans þegar um það er að tefla.

Þá vil ég í þessu sambandi, til að við höldum því líka til haga því okkur hættir svo til að horfa fram hjá mikilvægi hafsbotnsins, að minna á lögin um náttúruvernd, nr. 44/1999, þar sem segir í 54. gr., með leyfi forseta:

„54. gr. Friðlýsing náttúruminja í hafi. Umhverfisráðherra getur, að fengnu samþykki sjávarútvegsráðherra og eftir atvikum að fengnum tillögum eða áliti Hafrannsóknastofnunarinnar, Umhverfisstofnunar eða Náttúrufræðistofnunar Íslands, friðlýst innan landhelgi og efnahagslögsögu náttúruminjar í hafi, þ.m.t. eyjar og sker, og á hafsbotni sem mikilvægt þykir að varðveita sakir fegurðar eða sérkenna eða miklu skiptir frá vísindalegu, náttúrufræðilegu eða menningarlegu sjónarmiði að ekki sé raskað.“

Ég vil spyrja ráðherra: Hvað hefur verið gert? Hvernig hefur því samstarfi verið háttað sem þarna er kveðið á um í fyrrgreindum lögum um þá sömu þætti og við erum að tala um eða hliðstæða þætti? Hafa farið fram einhverjar viðræður, eitthvert samstarf eða er einhver áætlun af hálfu þessara ráðuneyta? Ég held að þarna sé um gríðarlega mikilvæga þætti að ræða eins og taldir eru upp í lögunum.

Frú forseti. Ég þarf ekki svo sem að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég vil þó enn vekja athygli á að samhengi þarf að vera á milli orða og gjörða. Ég vil benda á hinar mjög umdeildu dragnótaveiðar sem eru t.d. í Skagafirði og fyrir ströndum landsins. Við erum komin með báta sem eru mjög öflugir togbátar og þó að þeir séu litlir eru þeir miklu öflugri en togararnir voru hér á sínum tíma sem verið var að ýta úr landhelginni. Friðun og baráttan fyrir stækkun landhelginnar og fiskveiðilögsögunnar var einmitt hluti af því að ýta þessum togurum burt sem þá voru taldir varasamir og gengju of nærri fiskstofnunum. Nú eru að vísu komnir miklu minni bátar og undir nýjum lögum en eru miklu aflmeiri og fyllilega með togkraft á við hina gömlu togara. Hvenær á þá að taka á þessum málum? Ég held að þarna séum við líka komin út í nokkurt óefni.

Frú forseti. Þetta mál kemur náttúrlega til sjávarútvegsnefndar og ég sit í henni fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þar mun ég fara ítarlegar í gegnum þetta. En ég mátti til með að draga fram þingsályktunartillöguna um vernd og sjálfbæra nýtingu lífvera á hafsbotni, sem kveður á um nokkur þau atriði sem hæstv. ráðherra tekur inn í það frumvarp sem lagt er hérna fram. Hún hefur verið flutt á undanförnum þingum af hv. þingmönnum Kolbrúnu Halldórsdóttur og Steingrími J. Sigfússyni og þar á undan af Hjörleifi Guttormssyni, þeim ágæta og vísa fyrrverandi þingmanni og ráðherra, sem hefur borið þessi mál mjög fyrir brjósti. (Gripið fram í.) Já, já, Einar Olgeirsson var góður. Mér finnst mjög sanngjarnt að nefna nafn Hjörleifs Guttormssonar þegar verið er að leggja áherslu á bætta umgengni og rannsóknir á umhverfi, verndun og nýtingu á lífríki sjávar.