133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps fyrir 2. umr.

[15:18]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa því yfir að mér þykir hálfeinkennilegt af hv. þm. Jóni Bjarnasyni að hefja hér 2. umr. um frumvarp til fjáraukalaga sem fyrirhuguð er í þinginu á morgun.

Eins og fram kom hjá hæstv. fjármálaráðherra snúa athugasemdir hv. þingmanns að málum sem hér hafa verið til umræðu í þinginu um lengri eða skemmri tíma. Hv. þingmaður hefur öll tækifæri á að gera athugasemdir við þau mál og önnur í 2. umr. á morgun og getur þá spurst frekar fyrir um málin ef eitthvað er óljóst í þeim efnum.

Þess utan, hæstv. forseti, er hægt að ræða þessi mál og skoða öll gögn sem þeim viðkemur í nefndinni á milli 2. og 3. umr., og eins og fram kom í máli hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar stendur það til, er í sjálfu sér ekkert leyndarmál og verður ekki hamlað á móti því af hálfu meiri hluta ríkisstjórnarflokkanna.

Það liggur fyrir, hæstv. forseti, að þetta er upphlaup af hálfu hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Þetta er tilhæfulaust upphlaup og ég mótmæli því sérstaklega að menn misnoti þennan dagskrárlið með þessum hætti og tek í þeim efnum undir með hv. þm. Helga Hjörvar þegar hann segir að umræðan fari hér eins og venjulega út um víðan völl.

Því miður er það þannig, hæstv. forseti, að við þurfum að búa við þetta aftur og aftur af hálfu stjórnarandstöðunnar, aftur og aftur af hálfu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þetta eru vinnubrögð sem eru þinginu ósæmandi.