133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

upplýsingalög.

296. mál
[15:36]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra á hverju sú aðgreining byggir í greinargerð þar sem vísað er í og verið er að fjalla um undantekningar í 3. mgr. 25. gr. Þar er verið að telja upp og vísað í tilskipunina að þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. um miðlun þessara upplýsinga með ljósritun eða afhendingu rafrænna gagna gildi ákvæði kaflans ekki um Ríkisútvarpið, ekki um skóla-, bóka- og skjalasöfn eða rannsóknastofnanir og ekki um menningarstofnanir, enda þótt viðkomandi ráðherra geti síðan mælt fyrir í reglugerð að starfsemi slíkra stofnana falli þar undir.

Í greinargerðinni eru taldar upp rannsóknastofnanir sem af einhverjum ástæðum, mér huldum, eru taldar falla undir þetta undanþáguákvæði, þ.e. Veiðimálastofnun, Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Iðntæknistofnun Íslands, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir. Síðan er fjallað aðeins um menningarstofnanir og nokkru síðar kemur — og þarna er alltaf verið að vísa í e-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar:

„Sem dæmi um stofnanir sem hins vegar verða taldar falla undir ákvæði kaflans þrátt fyrir að þær sinni ákveðnum rannsóknum eru Landmælingar Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Veðurstofa Íslands.“

Á hverju nákvæmlega byggir aðgreining þeirra rannsóknastofnana sem þarna eru taldar upp?