133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

295. mál
[15:58]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um Vísinda- og tækniráð. Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi en varð þá ekki útrætt og er því lagt fram að nýju óbreytt.

Með lögum um Vísinda- og tækniráð sem Alþingi samþykkti í ársbyrjun 2003 voru málefni vísinda og tækni samræmd og færð upp á efsta stig stjórnsýslunnar. Í ljósi aukinnar samkeppni og alþjóðavæðingar þótti nauðsynlegt að tryggja svo sem kostur er að fjármunir sem varið er til vísindarannsókna og tækniþróunar séu nýttir á markvissari hátt en áður og dugi til að ryðja nýrri þekkingu braut og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Í Vísinda- og tækniráði koma saman ráðherrar, vísindamenn og fulltrúar atvinnulífs. Ráðið, sem er skipað til þriggja ára í senn, mótar stefnu í málefnum vísindarannsókna og tækniþróunar. Meginmarkmið stefnunnar er að treysta menningarlega og efnahagslega stöðu Íslands í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi þar sem höfuðáhersla er lögð á að auka úthlutunarfé opinberra samkeppnissjóða, efla háskóla sem rannsóknastofnanir og endurskilgreina skipulag og starfshætti opinberra rannsóknastofnana.

Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi iðnaðar- og viðskiptaráðherra um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Í því frumvarpi er gert ráð fyrir að sameina Iðntæknistofnun Íslands, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Byggðastofnun í nýja stofnun er heiti Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Miðstöðin verður þekkingarsetur þar sem saman koma tæknirannsóknir með tengsl við rannsóknir í háskólum og háskólasetrum annars vegar og þróunarstarfsemi fyrirtækja hins vegar. Þess vegna er lagt til í frumvarpi þessu að útvíkka starfsemi Vísinda- og tækniráðs til samræmis þannig að það taki til umfjöllunar málefni atvinnuþróunar auk málefna vísinda, tækni og nýsköpunar eins og nú er gert. Útvíkkun á starfsemi Vísinda- og tækniráðs með þessum hætti eykur þýðingu þess í stefnumótun ríkisstjórnarinnar í atvinnuþróun. Vegna þessarar viðbótar við verksvið ráðsins er lagt til að nafn þess taki breytingum til samræmis og það verði framvegis nefnt Vísinda- og nýsköpunarráð. Þá er gerð tillaga um að fulltrúum í ráðinu verði fjölgað um tvo sem forsætisráðherra skipi án tilnefningar og komi þeir frá atvinnulífinu. Jafnframt er gert ráð fyrir að forsætisráðherra verði heimilt að kveðja allt að fjóra ráðherra til setu í ráðinu í stað tveggja samkvæmt núverandi skipan.

Eftir sem áður verða tvær nefndir starfandi á vegum ráðsins sem undirbúa málefni Vísinda- og tækniráðs á milli funda þess. Annars vegar er vísindanefnd sem undirbýr stefnu stjórnvalda á sviði grunn- og hagkvæmra vísindarannsókna. Hins vegar verður nýsköpunarnefnd sem undirbýr stefnu á sviði tækni, nýsköpunar og atvinnuþróunar. Náið samstarf þarf að vera á milli þeirra enda um eina samfellda stefnu að ræða. Sú stefna þarf að taka til þátta sem fram til þessa hafa ekki verið á dagskrá ráðsins. Markmiðið er að vísinda- og nýsköpunarstefna ríkisstjórnarinnar geti orðið svo heildstæð að ýmiss konar sértækari stefnumótun verði samræmd með henni eða jafnvel falli inn í hana. Hér er m.a. vísað til stefnumótandi byggðaáætlunar sem er á verksviði iðnaðarráðuneytis. Byggðaáætlunin byggir nú þegar að talsverðu leyti á stefnu Vísinda- og tækniráðs og tekur einnig tillit til fjarskiptaáætlunar og stefnu í sveitarstjórnarmálum, svo að dæmi séu nefnd. Atvinnupólitísk stefnumótun Vísinda- og nýsköpunarráðs gæti orðið samnefnari slíkrar afmarkaðri stefnumótunar.

Gert er ráð fyrir að ákvæði þessa frumvarps taki gildi 1. janúar 2007 og skipi þá forsætisráðherra fyrrnefnda tvo nýja fulltrúa til setu í ráðinu til loka mars 2009.

Ég legg til, virðulegur forseti, að máli þessu verði að umræðunni lokinni vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.