133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

295. mál
[16:02]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að taka undir markmið frumvarpsins um að verksvið núverandi Vísinda- og tækniráðs samkvæmt lögum verði útvíkkað þannig að það nái einnig til nýsköpunar og atvinnuþróunar í landinu. Eins og hæstv. forsætisráðherra gat um er það atvinnupólitískt stórmál.

Hins vegar er það svo að lagasetning sem þessi og stór orð um að efla nýsköpun og hátækniiðnað öðlast ákaflega lítið inntak og ekki gerist neitt í þeim efnum nema ráðist sé í afskaplega öflugt átak til að efla nýsköpun og hátækni hvers konar í landinu. Það kom fram í svari hæstv. fjármálaráðherra til mín fyrr á þessu ári, á síðasta þingi, að hlutfall hátæknigreina í landsframleiðslu er einungis um 4% og það þarf að ráðast í mjög stórbrotnar framkvæmdir til að efla það. Ef á að efla rannsóknir og nýsköpun hvers konar er náttúrlega nauðsynlegast af öllu að veita miklu meira fé til rannsókna í háskólunum. Framlög til háskólanna hafa á undanförnum árum einungis hangið í fjölgun nemenda, og ekki það einu sinni. Engin raunaukning hefur átt sér stað, engin fjárfesting á sér stað í rannsóknum innan háskólanna. Því vildi ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það verði ekki að fylgja atvinnupólitískum málum eins og þessu eftir með einhverjum róttækum aðgerðum eins og því að fjárfesta duglega í rannsóknum í menntakerfinu og svo að byggja undir nýsköpunina með því t.d. að endurgreiða nýsköpunarfyrirtækjunum tiltekna prósentu af hönnunar- og framleiðslukostnaði í tiltekið árabil af tilteknum verkefnum.