133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

295. mál
[16:12]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að taka undir það með hv. þm. Merði Árnasyni og hæstv. forsætisráðherra að málið gangi einnig til menntamálanefndar. Ég sit jafnframt í allsherjarnefnd en það er sjálfsagt mál enda heyrir það mjög undir menntamálanefnd.

Hér er um að ræða stórmál, hér er um að ræða mál sem hefur með að gera stefnumótun stjórnvalda í vísinda- og tækniþróun og nýsköpun þar sem lagt er upp með „að samræma ólík sjónarmið ráðuneyta“, eins og segir hér, með leyfi forseta, „og skapa aukinn skilning og tengsl milli háskóla og fyrirtækja. Þá hefur samhæfing opinberra samkeppnissjóða verið árangursrík“.

Það vekur athygli á því hvað það væri mikilvægt að við værum búin að nútímavæða Stjórnarráðið með þeim hætti að hér væri í landinu starfandi eitt atvinnuvegaráðuneyti en ekki mörg lítil og úrelt ráðuneyti sem sum hver þjóna afskaplega litlum tilgangi. Það væri til mikilla bóta ef það væri búið að sameina atvinnuvegaráðuneytin í eitt og svo væri menntamálaráðuneytið stórt og öflugt þarna við hliðina.

Eins og ég kom inn á í andsvari mínu áðan öðlast stefna stjórnvalda, hin heildstæða og sértæka stefnumótun, hvort sem um er að ræða í sambandi við vísinda- og tæknistarf eða byggðaáætlanir, ekkert inntak. „Atvinnupólitísk stefnumótun Vísinda- og nýsköpunarráðs“ eins og segir hér „gæti orðið samnefnari slíkrar afmarkaðri stefnumótunar“ öðlast ekkert inntak nema þessum orðum fylgi athafnir sem felast í fjárfestingum í skólunum, fjárfestingum í rannsóknastarfi háskólanna. Það er mikilvægast af þessu öllu til að vísindarannsóknirnar nái fram að ganga.

Ég lýsti þeirri skoðun að það mætti gjarnan spyrða byggðamálin meira inn í þennan málaflokk og þá mikilvægu uppbyggingu að sameina stofnanir sem hafa með atvinnuþróun að gera. Það er ljóst að hugmyndin á bak við frumvarpið um Vísinda- og tækniráð er góð og þar liggur góður ásetningur að baki og þess vegna er nauðsynlegt að staldra við það sem gæti gætt slíkt frumvarp raunverulegu inntaki.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Meðal annars hefur skilningur aukist á mikilvægi vísindarannsókna fyrir efnahagslegar framfarir.“

Vildi ég byrja á því að fagna því að loksins hafi fengist í rauninni framgengt hjá hæstv. ríkisstjórn opinber og viðurkenndur skilningur á mikilvægi vísindarannsókna fyrir efnahagslegar framfarir vegna þess að framlög til þessara málaflokka í landinu, og þá ekki síst til rannsókna innan háskólanna, hafa verið af ákaflega skornum skammti. Við höfum margoft bent á mikilvægi þess að verja auknu fjármagni til rannsóknastofnana í landinu og þá ekki síst hins stóra og mikla rannsóknaháskóla okkar Íslendinga allra, Háskóla Íslands, sem hefur búið við hörmulegar aðstæður einmitt á þeim missirum sem hann þyrfti að fá mikið fjármagn til að komast í fremstu röð.

Rætt er um að Háskóli Íslands verði einn af hundrað bestu háskólum í heimi. Það er háleitt og stórbrotið markmið en til að skólinn eigi möguleika á því einu að komast í hóp 500 bestu háskólanna í heiminum er aðalmálið að efla rannsóknaþátt skólans. Það er það sem skilur á milli hinna bestu og þeirra sem skipa miðlunginn eða hina lakari skóla.

Öflugustu og bestu háskólarnir í heiminum eru langflestir bandarískir og nokkrir breskir. Af tíu bestu háskólum í heiminum sem almennt eru viðurkenndir eru átta bandarískir og tveir breskir. Þeir skólar hafa mikið fjárhagslegt svigrúm, bæði frá hinu opinbera vissulega og einkaaðilum, hvort sem það eru fyrirtæki, stofnanir eða í formi skólagjalda. En þar er allt lagt upp úr rannsóknaþættinum. Þetta eru öflugustu rannsóknaháskólar í heiminum.

Til að vísinda- og tæknistarfsemi í landinu eflist og skipti verulegu máli í atvinnupólitísku samhengi, eins og segir í frumvarpinu svo ágætlega, markmið frumvarpsins er gott, þarf að ráðast í stórbrotnar fjárfestingar í menntakerfinu. Stórbrotnar fjárfestingar í háskólunum sem hafa verið fjársveltir og þau mistök hafa átt sér stað að þeir eru orðnir allt of margir. Þá er ég sérstaklega að meina Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands sem rætt hefur verið um að sameina og ætti að sjálfsögðu að gera að mínu mati. Að sameina þá skóla og byggja þar upp einn af öflugustu rannsóknaháskólum í heiminum. Ef það mætti fram ganga þyrfti það að eiga sér stað með umfangsmiklum fjárfestingum. Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra um stórpólitísku línurnar í því máli því þeim er ekki að finna stað í fjárlögum t.d. þessa árs.

Þá vildi ég nefna við hæstv. forsætisráðherra að sóknarfærin til framtíðar er að sjálfsögðu að finna í vísinda- og hátæknigreinunum í allri sinni mynd og undir það fellur margt. Því nefndi ég að í svari hæstv. iðnaðarráðherra til mín við fyrirspurn um hátækni- og nýsköpunargreinar kemur fram að framlag hátækniiðnaðarins til landsframleiðslu hefur vissulega aukist frá því að vera 0,2% árið 1990 í 3,9% árið 2004. Vissulega er það mikil aukning en samt sem áður er þetta allt of lítill hluti af þjóðarframleiðslunni.

Það sem er áhugavert í því svari, og ég tel að Vísinda- og tækniráð ætti að skoða sérstaklega, er að hægst hefur verulega á vextinum í hátækniiðnaðinum á undanförnum árum. Stóra stökkið átti sér stað milli 1990 og 2000. Síðan hægir verulega á og núna síðustu missirin stendur hlutdeild hátækniiðnaðarins í þjóðarframleiðslunni algerlega í stað. Þess vegna kalla ég eftir stórpólitískum línum hjá hæstv. forsætisráðherra í þessum málum.

Það er áhyggjuefni að verðmæti hátæknigreinanna, þó að aukning sé á milli ára, hefur dregist verulega saman frá árinu 2000. Þetta er eitthvað sem verður að skoða sérstaklega og leggja áherslu á að við þurfum að byggja hátækniiðnaðinum í landinu almennilegt umhverfi, fyrsta flokks umhverfi, vegna þess að við viljum ekki missa þetta úr landi. Sóknarfærin í atvinnumálum Íslendinga eru gífurleg. Þá erum við að tala um byggðamál, menntamál og atvinnumál að sjálfsögðu. Það tekur til þess alls. Því verður að búa vel að slíkum fyrirtækjum.

Því spyr ég og spurði fyrr í dag hæstv. forsætisráðherra um það er lýtur að umhverfi þessara hátæknifyrirtækja, sem er að mörgu leyti ágætt, en hann svaraði því ekki. Það dugir ekki nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum að vera með fyrsta flokks regluverk í kringum sig. Lágur tekjuskattur á fyrirtæki duga slíkum fyrirtækjum ekki vegna þess að fyrstu 10–15 árin í starfsemi fyrirtækjanna skila þau litlum tekjum eða engum arði og greiða þar af leiðandi ekki tekjuskatt. Því gagnast sú staða þeim ekki.

Því tel ég og við höfum talað fyrir því í Samfylkingunni. að sérstakar aðgerðir verði að koma til fyrir slík fyrirtæki á meðan verið er að byggja þau upp og gera afurðir þeirra að verðmætum. Almennt er talað um að það taki 10–15 ár að byggja slík fyrirtæki upp. Ein þeirra leiða sem hefur verið farin með góðum árangri og oft er vísað til sem norsku leiðarinnar, er sú leið að endurgreiða og ívilna í gegnum skattkerfið. Þar er endurgreitt um 20% af rannsóknar- og þróunarkostnaði skilgreindra verkefna upp að ákveðinni upphæð sem getur verið t.d. 10 milljónir eða hærri eftir því hvernig stefnumótunin fer fram. Þetta er góð og gegnsæ aðferð til að ívilna sprotafyrirtækjum á uppvaxtarárum sínum þar sem þau eru hvað viðkvæmust. Þess vegna kalla ég eftir viðhorfum hæstv. forsætisráðherra til þeirrar leiðar.

Hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, tók mjög undir þá leið í umræðum í þinginu um þetta mál í fyrra. Þá var hann spurður út í þetta af hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur og tók hæstv. forsætisráðherra mjög undir að þetta gæti verið vænleg leið. Þess vegna er ástæða til að spyrja hæstv. forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins hvort viðhorfsbreyting hafi orðið í forsætisráðuneytinu með stólaskiptum þeirra ráðherra fyrr á árinu.

Þetta er mjög mikilvægt til að efla vísinda- og tæknistarf í landinu, auk þess að standi pólitískur vilji til að bæta þarna úr og ráðast í eitthvað sem mætti sókn til að efla vísindi og vísinda- og tæknistarf, hátæknigreinar, nýsköpunargreinar og sprotafyrirtæki í landinu, þá byrjar sú sókn bara á einum stað. Það er í háskólunum. Það er í rannsóknaháskólanum, Háskóla Íslands. Þar byrjar það þegar íslensk stjórnvöld ráðast af alvöru í viðamiklar fjárfestingar í rannsóknaþætti íslensku háskólanna allra, þá er ég ekki að undanskilja landbúnaðarháskólana, Háskólann á Akureyri o.s.frv. Þegar ráðist verður í stórbrotnar framkvæmdir í rannsóknaþáttum háskólanna er hafin sókn á þessum sviðum.

Breyting á lögum um Vísinda- og tækniráð er ágætt innlegg í þessa sókn alla. Til að gæða hana inntaki þurfa að koma til miklar fjárfestingar á rannsóknaþáttum í menntakerfinu. Það er alveg morgunljóst. Það vita allir sem hafa fjallað um þessi mál og kom fram í umsögnum hinna ólíkustu aðila um málið í fyrra. Ekki er um að ræða neina gagngera sókn eða eflingu vísinda og tæknigreina í landinu nema ráðist sé í mjög umfangsmiklar fjárfestingar í háskólunum.