133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[17:34]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég greindi ekki alveg í ræðu hæstv. ráðherra hvenær væri von á þeirri úttekt sem kölluð var 1. febrúar 2006, um geymsluþörf safna. Vil ég biðja ráðherrann að endurtaka það og segja okkur líka hverjir hafa annast þá úttekt og með hvaða hætti hún hefur verið gerð. Ég fagna því ef hún er núna fram komin og dæmin sanna að þörf var á henni miklu fyrr.

Um vilja minn til að samþykkja frumvarpið — ja, þá þarf að liggja fyrir, forseti, vilji ráðherrans til að setja stofnunina af stað því að hann er ekki ljós. Ljóst er að ráðherra vill setja svokallaða rammalöggjöf um Náttúruminjasafn Íslands, lög sem yrðu afar óljós og hefðu þær einu praktísku afleiðingar að hæstv. menntamálaráðherra gæti ráðið forstöðumann fyrsta kastið, og það gæti orðið nokkuð langt kast, til að standa fyrir stefnumótun sem ráðherrann á náttúrlega að standa fyrir og á að vera ábyrgur fyrir og getur fengið tilstyrk stjórnmálaflokka á þingi til ef hann vill.

Það stendur því ekki upp á mig, forseti, að svara hvort ég ætli að samþykkja frumvarpið í 1. umr. Þær spurningar sem þarf að svara eru hvaða vilji býr hjá hæstv. menntamálaráðherra að baki frumvarpinu þegar það er í greinum sínum óljóst, þegar markmið eru í óvissu og þegar fé til að fylgja því eftir er hulið í jörð.