133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[18:31]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Ágæti forseti. Ég sagði reyndar heim á hótel í Reykjavík en ég hygg að það séu ágætishótel í Keflavík sem vert er að hafa í huga líka.

Ég nefndi áðan að 15 eða 17 nefndir hafa farið yfir þetta mál frá upphafi. Menn mega ekki og eiga ekki að þurfa að finna upp hjólið hverju sinni. Það er óþarfi, virðulegi forseti.

Það hefur alltaf verið meiningin og er, þeirra sem að þessum málum hafa komið, að í náttúrusafni eða náttúruhúsi verði beitt nýjustu safntækni og uppeldislegri miðlun náttúrufræðisafna. Vegna þess að það eru ekki aðeins ferðamenn, hv. þingmaður, sem hingað koma sem vilja kynnast samhengi í náttúrunni. Þetta er líka hugsað fyrir skólabörnin okkar, að hægt sé að fara með þau (Forseti hringir.) til að sýna þeim slíkt safn.