133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[18:33]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætlaði að spyrja um atriði í ræðu hv. þingmanns en síðustu bollaleggingar hans verða óneitanlega til þess að maður bíður svara af því þingmaðurinn kemur fram sem mikill kunnáttumaður um söfn og safnastarfsemina, ekki síst Náttúruminjasafnið og Náttúrufræðistofnun.

Ég ætla því að biðja hann að fara aftur með þær hugleiðingar að Náttúruminjasafnið geti selt þá aðstöðu sem það er í núna. Eða á þingmaðurinn við að það selji af munum sínum eða minjum? Eða ætlast þingmaðurinn til að Náttúrufræðistofnun selji eitthvað af sínum eigum fyrir þetta nýja safn? Þegar hann talar um að þetta sé ekki mjög mikið, er hann þá að tala í milljónum eða í tugum milljóna eða er hann kannski að tala í hundruðum milljóna?

Það er rétt að vitna til þess sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði áðan, sem þekkir þessi mál sennilega betur en nokkurt okkar hinna sem hér erum inni. Ég hlustaði á ræðu hennar með mikilli athygli vegna þess að hún kemur beint af vettvangi. Hún nefndi að til að koma upp náttúruhúsi þyrfti á núverandi verðlagi um 1,5–2 milljarða. Eru það þeir smápeningar sem hv. þm. Hjálmar Árnason talaði um ræðu sinni?

Annað mál er það sem rétt er að spyrja um úr ræðustólnum úr því tækifæri gefst til þess. Heyrst hafa þær hugleiðingar áður frá hæstv. umhverfisráðherra, Jónínu Bjartmarz, að flytja eigi Náttúrufræðistofnun á Keflavíkurflugvöll. Hjálmar Árnason hefur tekið undir það enda til hans vitnað í þeim ummælum ráðherrans.

Er það orðin stefna Framsóknarflokksins að flytja Náttúrufræðistofnun og Náttúruminjasafnið á Keflavíkurflugvöll?