133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

upplýsingar og samráð í fyrirtækjum.

231. mál
[18:51]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að beina tveimur spurningum til hæstv. félagsmálaráðherra.

Sú fyrri er hvort kannað hafi verið hvort þetta frumvarp nái til margra fyrirtækja. Hin spurningin er hvort fólk geti fengið upplýsingar fyrir ástæðu uppsagnar en frumvarpið beinist að því að starfsmenn geti fengið upplýsingar um ýmislegt er varðar rekstur fyrirtækja. Um þetta hefur farið fram umræða í þinginu, m.a. hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagt fram frumvarp til laga þar að lútandi og einnig hefur komið fyrirspurn frá hv. þm. Valdimar Leó Friðrikssyni um ákveðna samþykkt, þ.e. ILO-samþykkt nr. 158, sem varðar það hvort fólk geti fengið upplýsingar fyrir ástæðu uppsagnar. Ég veit að sú samþykkt skiptir verulega miklu máli.

Það hafa ekki fengist skýr svör hjá hæstv. félagsmálaráðherrum á umliðnum árum um það hver þeirra stefna sé. Málinu hefur alltaf verið vísað í einhverjar nefndir og einhvern farveg en það hefur aldrei komið klár afstaða hjá hæstv. félagsmálaráðherrum, eins og m.a. má sjá í skriflegu svari sem dreift var nýlega. Það væri fróðlegt og er raunar nauðsynlegt þegar rætt er um upplýsingagjöf til starfsmanna að þessi mál séu líka rædd, það er ekki hægt að komast hjá því, þ.e. annars vegar hvað þetta nái til margra fyrirtækja og síðan hitt er snýr að samþykkt ILO nr. 158.