133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

upplýsingar og samráð í fyrirtækjum.

231. mál
[18:56]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um upplýsingar og samráð fyrirtækja og það er alveg ljóst að innleiðing á efni þessarar tilskipunar Evrópuþingsins hefur þvælst mjög fyrir aðilum vinnumarkaðarins. Þeir hafa ekki náð neinu samkomulagi um meðferð þessa máls, enda ber málið þess vott hérna, og efni þess í frumvarpinu sem ég ætla að fara nánar inn á. Ef ég man rétt var þetta mál líka fyrir síðasta þingi og náði ekki fram að ganga.

Ég hefði kosið, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra hefði haft lengra mál og skýrt út fyrir þjóðinni gildi þessa frumvarps fyrir launafólk, hvaða þýðingu efni tilskipunarinnar hefði. Hér á landi erum við komin miklu skemur en aðrar þjóðir og raunverulega mjög stutt á leið í því að koma á atvinnulýðræði. Efni þessarar tilskipunar er vísir að því. Þetta er mál sem hefur verið mér nokkuð hugleikið á umliðnum árum, atvinnulýðræði og réttur fólksins í því sambandi. Ég flutti fyrir 2–3 árum m.a. tillögu til þingsályktunar um atvinnulýðræði þar sem lagt var til að félagsmálaráðherra skipaði nefnd sem hefði það hlutverk að kanna og gera tillögur um það hvernig unnt sé að tryggja áhrif starfsmanna á stjórnun og ákvarðanatöku í fyrirtækjum og stofnunum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Nefndin átti að skoða hvaða leiðir hefðu verið farnar í nágrannalöndununm, einkum í Danmörku og Þýskalandi, og jafnframt á vettvangi Evrópusambandsins.

Þessi tillaga náði ekki fram að ganga en eins og ég nefndi erum við komin mjög skammt á leið í þessu efni og ég lagði til í þeirri tillögu sem ég flutti að við mundum skoða þær leiðir sem farnar hafa verið í Danmörku. Þar er atvinnulýðræði tryggt með þeim hætti að starfsmenn kjósa tiltekið hlutfall stjórnarmanna í hlutafélögum og það að auka áhrif starfsmanna innan fyrirtækja og stofnana er leið sem búast má við að skili mestum árangri á tiltölulega skömmum tíma. Einnig hafa verið ákvæði í þýskri löggjöf frá um 1950 um áhrif starfsmanna á stjórnun fyrirtækja og stofnana. Í Noregi var starfsmönnum ríkisfyrirtækja veittur réttur til þess að velja fulltrúa í stjórn þegar árið 1947. Ákvæðin í dönsku hlutafélagalöggjöfinni um rétt starfsmanna til að kjósa fulltrúa í stjórn félaga eru frá 1973 og hafa reynst vel. Ákvæðin gilda um fyrirtæki sem hafa 35 starfsmenn eða fleiri.

Tilgangurinn með tillögunni sem ég flutti á sínum tíma var fyrst og fremst sá að opna umræðuna um atvinnulýðræði í íslenskum félögum og stofnunum. Norðurlöndin hafa náð mjög langt á þessu sviði, eins Þýskaland eins og ég nefndi og reyndar mörg önnur lönd innan Evrópusambandsins. Náið samband fyrirtækis og starfsmanna þekkist einnig annars staðar, t.d. í Japan þar sem algengt er að starfsmenn vinni allan starfstíma sinn hjá sama fyrirtæki. Í Svíþjóð er gert ráð fyrir að fulltrúar starfsmanna komi frá stéttarfélögum en séu ekki nauðsynlega starfsmenn viðkomandi fyrirtækis. Í Danmörku er stefnan hins vegar sú að fulltrúar starfsmanna í stjórn séu starfsmenn viðkomandi fyrirtækis. Þetta stutta yfirlit sýnir hvað við erum langt á eftir þessum þjóðum sem ég nefndi, m.a. annars staðar á Norðurlöndunum, enda er það viðurkennt raunverulega í greinargerð með þessu frumvarp þar sem segir, með leyfi forseta:

„Hér á landi hefur fram til þessa ekki verið fyrir hendi löggjöf sem mælir fyrir um jafnalmennan rétt til þátttöku í undirbúningi að ákvarðanatöku fyrirtækja og frumvarp þetta kveður á um.“ — Samt er hér farið mjög lítið skref í áttina að því að opna fyrir atvinnulýðræði með þessu máli sem hæstv. ráðherra mælir hér fyrir.

Það er oft rætt um tvær færar leiðir til að auka áhrif starfsmanna innan félaga og stofnana. Önnur er sú að starfsmenn hafi áhrif á mál sem snerta vinnutilhögun, svo sem vinnutíma, aðbúnað, kaup og kjör, og það þekkjum við hér. Síðan er það hin leiðin sem felst í því að auka áhrif starfsmanna í stjórnun og þar höfum við, eins og ég segi, mjög lítið aðhafst. Við erum langt á eftir nágrannaþjóðunum hvað varðar þann þáttinn í skipulagi atvinnulífsins.

Það er hægt að skipta atvinnulýðræði í nokkur stig. Fyrsta stigið er óformleg upplýsingagjöf frá æðstu stjórnendum og eigendum til starfsmanna. Næsta stig er samráð um starfsumhverfið og afmarkaða þætti í stjórnun fyrirtækis og þriðja stigið felur í sér að ráðandi hópur, þ.e. eigendur, æðstu stjórnendur og starfsmenn, tekur sameiginlega ákvarðanir um stjórnun fyrirtækis. Rökin fyrir auknum áhrifum starfsmanna eru m.a. þau að með auknu samstarfi og upplýsingastreymi er hægt að ná fram hagkvæmum áhrifum á rekstur fyrirtækis og stöðu starfsmanna. Aukið atvinnulýðræði bætir starfsanda, veitir stjórnendum aðhald, bætir kjör og eykur lýðræðislega stjórnunarhætti. Atvinnulýðræði vinnur líka gegn óeðlilegri valdasamþjöppun og er hluti af góðri fyrirtækjamenningu sem er mikilvægur þáttur í nútímastjórnun. Fleiri rök fyrir aðild starfsfólks að stjórnun félaga og stofnana eru m.a. að tekið er tillit til hagsmuna starfsmanna með því að bæta aðgengi að reynslu og upplýsingum sem starfsmenn búa yfir.

Við göngum alls ekki svo langt eins og ég hef hér verið að vitna til, heldur felur þessi tilskipun aðeins í sér að stigið er mjög smátt skref í því að atvinnurekendur eigi að veita fulltrúum starfsmanna upplýsingar um þróun á horfum varðandi starfsemi og fjárhagsstöðu fyrirtækis, stöðu, skipulag og horfur í atvinnumálum í fyrirtækjum, um allar ráðstafanir sem fyrirsjáanlegar eru, einkum ef atvinnuöryggi er ógnað, ákvarðanir sem líklegt er að leiði til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar eða á ráðningarsamningum starfsmanna, þar með taldar ákvarðanir sem eru byggðar á ákvæðum laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og hópuppsagnir. Upplýsingar samkvæmt þessu skulu veittar á þeim tíma á þann hátt og þess efnis sem heppilegast er svo að fulltrúi starfsmanna geti gert viðeigandi athugun og undirbúið samráð ef þess gerist þörf.

Þetta sýnir auðvitað að hér er alls ekki verið að opna fyrir neina aðild starfsmanna að ákvarðanatöku eða stjórnun innan fyrirtækja eins og víðast þekkist þar sem atvinnulýðræði hefur verið þróað, heldur eru hér fyrst og fremst gerðar ráðstafanir til að tryggja betur atvinnuöryggi launþega, má segja, þannig að þeir hafi fyrr vitneskju um það ef eitthvað er í starfsemi fyrirtækis sem getur ógnað starfsöryggi starfsmanna. Hér er náttúrlega langt í frá farin sú leið sem var rædd í andsvörum áðan, að launafólk hafi rétt til þess að fá upplýsingar um ástæður uppsagnar þegar það er uppi á borðum. Það er auðvitað alveg til skammar hvað það hefur dregist lengi að innleiða þessa tilskipun sem er afar mikilvæg fyrir launafólk. Það hefur tekið mörg ár að reyna að ná einhverju samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins í þessu efni. Ég tek auðvitað undir með ráðherra að það er mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins komi sér saman um það að innleiða efni tilskipana sem snerta vinnumarkaðinn en þegar liðinn er svona óhóflega langur tími hlýtur að fara að koma að því að hæstv. ráðherra verður að höggva á þann hnút.

Ég mun fá þetta mál til umfjöllunar í hv. félagsmálanefnd og það sem ég gagnrýni í þessari málsmeðferð er í fyrsta lagi hvað þetta hefur tekið langan tíma, í annan stað hvað heimildir til aðlögunar eru nýttar til hins ýtrasta við að koma á þó þessum litla vísi að atvinnulýðræði inn á vinnumarkað okkar. Það er bæði að því er varðar aðlögunarfrestinn sem er nýttur til hins ýtrasta og eins varðandi fjölda fyrirtækja sem þetta frumvarp nær til. Hér er mjög skammt gengið og ég spyr hæstv. ráðherra hvort aðilar vinnumarkaðarins hafi verið sammála um að fara þá leið sem hér er lögð til, að nýta aðlögunarfrestinn alveg upp í topp, og að fyrstu tvö árin nái tilskipunin einungis til fyrirtækja sem eru með 100 starfsmenn eða fleiri. Ég trúi því varla fyrr en á reynir, og um það mun verða spurt í félagsmálanefnd hvort Alþýðusambandið hafi fallist á að ganga svona skammt í því að innleiða þessa tilskipun.

Líkt og hv. 10. þm. Norðvest. sagði er nauðsynlegt að upplýsa um viss atriði hér. Ég gat ekki séð þegar ég fór yfir þetta frumvarp hvað þessi tilskipun mundi þýða fyrstu tvö árin út af þessu ákvæði til bráðabirgða þar sem nýtt er ákveðin aðlögun fram til 1. mars 2008, um að þetta eigi að takmarkast við fyrirtæki þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 100 starfsmenn. Er ekki bara um örfá fyrirtæki að ræða hér sem eru með yfir 100 starfsmenn? Síðan kveður frumvarpið á um að lögin eftir þann tíma eigi að gilda um fyrirtæki sem að jafnaði hafa a.m.k. 50 starfsmenn á innlendum vinnumarkaði. Ég spyr: Komst það ekki til tals af hálfu ASÍ að ganga lengra en að miða við 50 starfsmenn, fara kannski niður í 20? Mig minnir að ég hafi heyrt að það væri krafa ASÍ að það ætti að miða þetta við fyrirtæki þar sem væru a.m.k. 20 starfsmenn eða fleiri. Þetta er mikilvægt að fá upplýst.

Þegar ég ræddi áðan, virðulegi forseti, um að ég hefði gjarnan viljað heyra ráðherrann ræða meira um það hvaða áhrif þetta muni hafa á starfsumhverfi fyrirtækja og launþega fer framkvæmdin örugglega eftir því hver vilji fyrirtækjanna er til þess að framfylgja þessari löggjöf, með hvaða hætti, og svo líka vilja starfsmanna til þess að nýta sér þennan möguleika sem launafólk er óvant. Það er óvant atvinnulýðræðinu eins og það hefur þróast í nágrannalöndum okkar. Það er mikilvægt fyrir verkalýðshreyfinguna að kynna vel fyrir trúnaðarmönnum á vinnustöðum hvaða möguleika þessi löggjöf felur í sér og hvaða möguleika löggjöfin felur í sér fyrir launafólk almennt og hvernig það getur nýtt sér þó þann rétt sem fram kemur í þessari löggjöf.

Ég vil líka segja að þar sem við erum svo skammt komin í að þróa eitthvað sem heitir atvinnulýðræði kemur hér fram mjög loðið ákvæði og í greinargerð sést að það er mjög loðið hvernig fyrirtæki munu framfylgja þessu, þ.e. hvaða upplýsingaskyldu þau hafa gagnvart launþegunum, hvort þau geti í tíma og ótíma skýlt sér á bak við einhverjar samkeppnishamlandi upplýsingar sem sé erfitt fyrir fyrirtæki að veita út af viðskiptaleyndarmálum, samkeppnisaðstæðum o.s.frv. Ég spyr: Þarf ekki að skilgreina betur hvað ýmislegt sem fram kemur í þessu frumvarpi felur í sér? Hér stendur t.d. í greinargerðinni, með leyfi forseta: „Þá skuli aðildarríki, þar sem ekki hefur verið komið á lögboðnu upplýsinga- og samráðskerfi fyrir launafólk eða fulltrúa þeirra, hafa þann möguleika til bráðabirgða að takmarka enn frekar gildissvið tilskipunarinnar að því er varðar fjölda launafólks.“ — Síðan kemur hér fram, með leyfi forseta: „Sérstaklega er tiltekið í formálsorðunum að fyrirtæki og starfsstöðvar skuli vernduð gegn því að afhentar séu sérlega viðkvæmar upplýsingar auk þess sem að vinnuveitandanum skuli heimilt að veita ekki upplýsingar og hafa ekki samráð við tilteknar aðstæður sem nánar greinir í tilskipuninni.“

Er ekki verið að opna fyrir alls konar undankomuleiðir fyrir fyrirtækin til að komast hjá því að veita launafólki eða trúnaðarmönnum á vinnustað þær upplýsingar sem þó er kveðið á um? Það er þetta, virðulegi forseti, sem ég hef nokkrar áhyggjur af. Um þetta vil ég spyrja hæstv. ráðherra.

Hér stendur líka, með leyfi forseta: „Í þeim tilvikum þar sem skylda til samráðs við fulltrúa starfsmanna er fyrir hendi er þó ávallt skilyrði að atvinnurekandinn hagi upplýsingagjöf sinni þannig að fulltrúar starfsmanna hafi raunverulega möguleika til að setja sig inn í málið og taka þátt í því samráði sem gert er ráð fyrir í framhaldinu.“

Maður veltir fyrir sér hvort eitthvað sé í þessu frumvarpi um einhvern tilskilinn tímaramma sem fyrirtækjum beri skylda til að koma upplýsingum á framfæri innan, þ.e. innan einhvers tilskilins tímafrests varðandi upplýsingar um stöðu fyrirtækjanna sem stefni atvinnuöryggi launamanna í hættu. Geta þeir kannski bara gert þetta deginum áður en tilkynnt er um uppsagnir? Það er ýmislegt í þessu sem mér finnst ansi laust í reipunum sem ég hefði viljað festa nánar niður í þessari löggjöf.

Síðan er enn verið að opna svigrúm fyrir atvinnurekendur til að komast hjá upplýsingagjöfinni og í greinargerðinni stendur enn fremur, með leyfi forseta: „Þar sem nauðsynlegt getur verið að undanþiggja tilteknar upplýsingar frá þessari skyldu er mælt fyrir um að í undantekningartilvikum geti atvinnurekandi látið hjá líða að veita slíkar upplýsingar, enda geti þær valdið alvarlegu tjóni eða röskun á starfsemi fyrirtækisins.“

Hver á að meta hvort tilteknar upplýsingar séu þess eðlis að þær gefi atvinnurekandanum færi á að komast hjá að veita þessar upplýsingar? Geta þeir ekki alltaf haldið því fram, virðulegi forseti, að hér sé um að ræða þannig upplýsingar að þær geti valdið tjóni eða röskun á starfsemi fyrirtækisins? Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessu, að með ýmsum loðnum ákvæðum, bæði í greinargerð og í frumvarpinu sjálfu, sé komið í veg fyrir að þessi löggjöf nýtist launþegum eins og þó er ætlast til, þessi litli vísir sem verið er að opna að atvinnulýðræði.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frumvarp þar sem ég á sæti í þeirri nefnd sem mun fjalla um málið. Eins og hæstv. ráðherra heyrir hef ég ákveðna fyrirvara á þessu þótt ég fagni hverju skrefi sem við stígum til að koma hér á atvinnulýðræði. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem ég hef beint til hans við 1. umr. málsins. Það mun auðvelda alla umfjöllun um málið í hv. félagsmálanefnd.