133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

álversáform í Þorlákshöfn.

[14:17]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni og lýsa því yfir að ég satt að segja skil ekki hvers vegna þessi mál eru tekin til umræðu á hinu háa Alþingi. Það sem liggur fyrir er að einkaaðilar eru að ræða við sveitarstjórn á Suðurlandi um mögulega atvinnuuppbyggingu á því svæði. Hverjar eru staðreyndir málsins?

Eins og fram kom hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur er það stóriðjunefnd Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi sem hefur unnið að málinu og haft forgöngu um það á því svæði. Sveitarfélagið Ölfus vinnur sömuleiðis að málinu og einkaaðilar hafa leitað til einhverra orkufyrirtækja um möguleika á orkukaupum í framtíðinni. Málið er á algerum byrjunarreit og engin orkufyrirtæki hafa haft samband við ráðuneytið eins og fram kom hjá hæstv. iðnaðarráðherra. Þetta er verkefni á vegum einkaaðila án aðkomu iðnaðarráðherra. Að auki hafa engir fjárfestar haft samband við ráðuneytið eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra.

Það eru samtök sveitarfélaga sem eru að vinna að málinu ásamt einkaaðilum og það fer auðvitað illa í hv. þingmenn Vinstri grænna vegna þess að heimamenn fá að ráða einhverju í sínum málum Það er auðvitað gamla góða miðstýringin, gamla góða forsjárhyggjan sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þekkir svo vel og vill auðvitað taka upp í auknum mæli. (ÁI: Kjaftæði.) VG er á móti orkufrekum iðnaði og það breytist í sjálfu sér ekki hvernig svo sem þessi umræða fer á Alþingi, hæstv. forseti.