133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

aðstaða til millilandaflugs frá Akureyri.

[12:12]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir að taka þetta mál hér upp því að hér er um mjög brýnt mál að ræða. Ég lagði áherslu á það við undirbúning þeirrar samgönguáætlunar sem nú er í gildi að lenging flugbrautarinnar á Akureyri kæmi næst á dagskrá. Þá sagði hæstv. samgönguráðherra að það væri brýnna að laga flugvöllinn á Þingeyri og ég læt það svo sem vera. Ég vil þó leggja áherslu á að það verði forgangsframkvæmd að lengja flugbrautina á Akureyrarflugvelli.

Ég hlýt að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvernig á því standi að flugmálastjóri skuli segja að legið hafi fyrir að ekki yrði ráðist í lengingu flugbrautarinnar á Akureyri með litlum fyrirvara. Ég hef lagt áherslu á að það verði forgangsverkefni að lengja flugbrautina á Akureyrarflugvelli, og í þingflokki Sjálfstæðisflokksins liggur ekki fyrir nein samþykkt um að svo geti ekki orðið. Þess vegna spyr ég hvernig á því megi standa að þetta skuli ekki vera forgangsframkvæmd.

Ég hlýt líka að láta í ljósi undrun mína yfir því að hæstv. samgönguráðherra sé ekki metnaðarfyllri fyrir hönd Íslendinga og Akureyringa varðandi undirbúning millilandaflugs milli Akureyrar og Evrópu. Mér skilst að sú athugun sem nú fari fram á vegum samgönguráðherra beinist eingöngu að því að bæta flugskilyrði fyrir innanlandsflug en ekki millilandaflug. Ég spyr hæstv. samgönguráðherra hvort það sé réttur skilningur.