133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

aðstaða til millilandaflugs frá Akureyri.

[12:14]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F):

Virðulegi forseti. Norðlendingar hafa haft ákveðnar áherslur í þessu máli sem ég þarf ekki að rekja hér. Það er brautryðjendastarf að koma á millilandaflugi frá flugvöllum úti á landi, því hef ég orðið vitni að bæði á Egilsstöðum og Akureyri. Ég tek því undir að það er brýnt mál að aðstaðan á stöðunum sé ekki þrándur í götu.

Að öðru leyti vil ég náttúrlega ræða málið þegar samgönguáætlun verður til meðferðar hér innan tíðar. En ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, hér er um mjög áríðandi mál að ræða, bæði lengingu flugbrautarinnar og einnig lagfæringu á aðflugstækjum á Akureyri. Aðstaðan á ekki að þurfa að hamla því að þessi þarfa starfsemi fari fram. Hún er erfið og það er brautryðjendastarf að koma á beinum samgöngum á milli landsbyggðarinnar og útlanda.