133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

aðstaða til millilandaflugs frá Akureyri.

[12:15]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Til að efla Eyjafjarðarsvæðið sem raunverulegan búsetuvalkost við höfuðborgarsvæðið er mjög mikilvægt að stórmál eins og þetta gangi eftir. Hér er um að ræða að ríkið skapi fyrirtækjum aðstöðu til að koma þarna upp og opna á mjög stóran markað. Millilandaflugi er beint þangað norður og hefur gefist mjög vel. Því varð það mikið áfall, og ég tek undir með hv. þm. Birki J. Jónssyni, þegar Iceland Express hætti að fljúga norður út af vanefndum um lengingu flugbrautarinnar á Akureyrarflugvelli, alvarlegum vanefndum í byggðamálum sem er brýnt að gangi eftir til að jafna aðstæður fólksins úti á landi við það sem gerist á höfuðborgarsvæðinu, til að skapa þann öfluga búsetuvalkost á Eyjafjarðarsvæðinu sem er nauðsynlegur þegar á þarf að halda og er opinbert byggðamál á Íslandi.

Viðbrögð hæstv. samgönguráðherra við þessum spurningum hv. þm. Kristjáns Möllers voru nokkur vonbrigði og er ástæða til að taka undir brýningar hv. þm. Halldórs Blöndals um það að þetta mál gangi rösklega eftir og að fyrir því komi fram trygging hér í dag að þetta verði að finna á nýrri og endurskoðaðri samgönguáætlun. Hér er verið að ræða um að skapa aðstæður, opna markað, að ríkið gangi þannig fram með eðlilegum og jákvæðum hætti. Gangi það ekki eftir er um að ræða alvarlegar vanefndir í byggðamálum og því ástæða til að skora á hæstv. ráðherra samgöngumála að taka hraustlega á þessu máli.