133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

aðstaða til millilandaflugs frá Akureyri.

[12:17]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin þó að ég hafi orðið fyrir nokkrum vonbrigðum. Ég kýs að túlka það þannig að ráðherrann sé varkár og treysti sér ekki til að segja meira meðan vinna við samgönguáætlun á sér stað í ráðuneyti og ríkisstjórn. En það má heyra hér að fulltrúar allra flokka leggja á það áherslu að úr þessu verði bætt.

Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson ræddi þetta svolítið út frá byggðamálum og það minnti mig á það, um leið og ég horfi á ráðherrabekkinn vinstra megin, að hér er fyrrverandi ráðherra byggðamála, 1. þm. Norðaust. Þögn hennar er dálítið sérstök í þessu máli. En það kom upp í huga minn að oft hefur verið rætt um svona mál eins og samgöngumál, lengingu flugbrautar og fleira á Akureyri í sambandi við byggðamálin til að efla það svæði í byggðalegu tilliti. Það hefur ekki gengið hvað varðar það sem sett hefur verið fram í byggðaáætlun á tyllidögum, og svo sjáum við efndirnar eins og við erum að tala um nú.

Virðulegi forseti. Ég segi það aftur að ég trúi því og treysti að hæstv. ráðherra og ríkisstjórn beiti sér fyrir því að fjármagn verði tryggt strax í lengingu flugbrautar á Akureyri. Það er ekki hægt að una við það að ríkið standi sig ekki í því að skapa á Akureyri þá aðstöðu sem því ber, eins og annars staðar — ég tek sem dæmi Keflavík — meðan einkafyrirtækin ætla að standa sig og bjóða upp á þennan valkost sem er millilandaflug. Það verður að ganga eftir og það er ekki hægt að una þessu.

Ég get nefnt sem dæmi ferjuhöfnina á Seyðisfirði þar sem 700 manna byggðarlag var látið taka þátt í kostnaði. Stækkun flugbrautar á Egilsstöðum hefur ekki orðið að veruleika og hér erum við að tala um flugvöllinn á Akureyri.

Virðulegi forseti. Ég hyggst fylgja þessu máli betur eftir og hef þess vegna haft samband við ágætan formann samgöngunefndar, hv. þm. Guðmund Hallvarðsson, og óskað eftir því að þetta verði tekið fyrir á næsta fundi samgöngunefndar. Hann hefur orðið við þeirri beiðni minni (Forseti hringir.) og fulltrúar Iceland Express, flugmálastjóra og aðrir verða kallaðir til fundar (Forseti hringir.) til að ræða þessi mál.