133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

aðstaða til millilandaflugs frá Akureyri.

[12:22]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmenn vita, ekki síst þeir tveir fyrrverandi samgönguráðherrar sem hér hafa talað, er ekki í samgönguáætlun gert ráð fyrir lengingu flugbrautarinnar á gildandi tímabili. Þegar menn tala um að það eigi að lengja flugbrautina nú þegar, til þess að hægt sé að fljúga á milli landa, vita þeir að allt tekur þetta tíma. Lenging flugbrautar sem kostar 500 millj. verður ekki hrist fram úr erminni núna þannig að Iceland Express geti haldið áfram að fljúga, það ætti öllum að vera ljóst. Vilji minn er vissulega til staðar um það að við endurskoðun á samgönguáætluninni verði þetta verkefni tekið til þeirrar skoðunar sem nauðsynlegt er að gera, og helst af öllu að gera ráð fyrir framkvæmdum í samgönguáætlun. Til þess stendur vilji minn.

Það verður öllum að vera ljóst að það kostar 500 millj. að lengja brautina, það kostar 250 millj. að endurnýja aðflugsradar sem verið er að skoða. Þetta kostar heilmikla fjármuni og mér finnst menn tala af dálitlu ábyrgðarleysi þegar þeir láta að því liggja að flugfélagið sé hætt að fljúga núna vegna þess að brautin sé ekki lengri en hún er. Samgönguráðuneytið hefur ekki fengið frá þessu flugfélagi upplýsingar um það að það ætli að hætta að fljúga vegna þess að brautin sé ekki lengri en hún er. Ég bið hv. þingmenn að líta á þetta mál af raunsæi og ábyrgðartilfinningu og reyna ekki að þyrla upp moldviðri um hluti sem eru óframkvæmanlegir á þessari stundu. Þetta verkefni er meðal þeirra sem þarf að vinna, þ.e. að bæta aðflugsskilyrðin að flugvellinum á Akureyri til að tryggja að þar sé hægt að sinna millilandaflugi. Við þurfum að vinna að því að lengja brautina þannig að hún uppfylli þær kröfur sem við viljum að hægt sé að uppfylla á þessum flugvelli.