133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[12:25]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum lagt fram sameiginlegt nefndarálit fyrir 2. umr. fjáraukalagafrumvarps þess sem greidd eru atkvæði um hér. Þar förum við ítarlega yfir gagnrýni okkar á þetta frumvarp. Eins og áður notar ríkisstjórnin fjáraukalögin til að breyta myndinni af ríkisrekstrinum. Enn eitt árið er verið að slá upp glansmyndum í stað þess að fram fari raunveruleg áætlunargerð.

Umgengni ríkisstjórnarinnar og meiri hluta Alþingis um lög um fjárreiður ríkisins hefur ekkert farið fram eins og sést í þessu frumvarpi til fjáraukalaga. Á meðan svo er munu fjárlög og fjáraukalög ekki vera sá rammi sem þau eiga að vera um ríkisreksturinn ef farið væri að fjárreiðulögum í einu og öllu. Við þessar aðstæður er ekki við því að búast að stjórntæki á borð við fjárlög og fjáraukalög nýtist við efnahagsstjórnina eins og þeim ber ef rétt væri á málum haldið.

Þrennt vekur sérstaka athygli í þessu frumvarpi. Í fyrsta lagi það hvernig tekið er á vanda einstakra fjárlagaliða. Stofnanir sitja ekki við sama borð þegar kemur að því að leysa vanda þeirra. Hvað það er sem ræður vali á stofnunum eða hvaða reglur gilda innan og á milli ráðuneyta er óljóst. Því ræður hér, eins og oft áður, hrein tilviljun hvaða stofnanir eru leiðréttar í frumvarpi þessu. Samkvæmt fjárreiðulögum eiga þessar leiðréttingar hins vegar að afgreiðast í tengslum við fjárlög næsta árs en ekki fjáraukalög yfirstandandi árs eins og hér er gert.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, er mikilvægt að draga sérstaklega fram hvernig meiri hlutinn á Alþingi hefur með skipulegum hætti vanáætlað gjöld ýmissa mikilvægra stofnana við gerð fjárlaga. Framhaldsskólarnir eru skýrt dæmi um það en í þessu fjáraukalagafrumvarpi eru lagðar til 250 millj. sem renna eiga óskiptar til framhaldsskólanna vegna nemendafjölgunar. Þessi nemendafjölgun var algjörlega fyrirséð við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár og lögðu fulltrúar stjórnarandstöðunnar fram breytingartillögur upp á einmitt 250 millj. til að mæta fyrirséðri fjölgun nemenda. Þá tillögu felldi ríkisstjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi en nú er komið með þessa tillögu inn í fjáraukalögin.

Í þriðja lagi er með hreinum ólíkindum hvernig komið er inn með óskir um heimildir til lántöku upp á milljarðatugi án þess að gögn séu lögð fram því til stuðnings í fjárlaganefnd.

Virðulegi forseti. Þessi vinnubrögð eru auðvitað ekki tæk fyrir hv. Alþingi ef það vill láta taka sig alvarlega.

Ríkisstjórnarmeirihlutinn ber alla ábyrgð á þessum vinnubrögðum og þar með málinu öllu. Samfylkingin tekur ekki þátt í þeirri gjörð sem hér er lögð fram og mun sitja hjá við alla afgreiðslu málsins.