133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[12:28]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Um þessa atkvæðagreiðslu höfum við í Frjálslynda flokknum eftirfarandi athugasemdir: Við afgreiðslu Alþingis nú á fjáraukalagatillögum ríkisstjórnarinnar fyrir 2006 munu þingmenn Frjálslynda flokksins greiða atkvæði gegn tillögum um kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun. Sá samningur sem um ræðir um kaupin hefur ekki verið lagður fyrir Alþingi til samþykkis né kynntur í fjárlaganefnd. Afgreiðsla á fjáraukalagafrumvarpi nú án þess að samningurinn hafi komið til umræðu er andstæð lögum og góðri venju við afgreiðslu mála og greiðum við því atkvæði gegn þeirri ráðstöfun.

Fjárveitingum vegna aukaverka við Kárahnjúkavirkjun hafa ekki fylgt neinar skýringar á því fyrir hvaða verkþætti eigi að veita aukna ábyrgð ríkissjóðs. Fjárlaganefnd á ekki að vera afgreiðslustofnun á fjárskuldbindingum án umræðu og skýringa. Meðan þannig er staðið að afgreiðslu einstakra erinda eftir pöntun ráðherra hverju sinni er ekki hægt að samþykkja málið og greiðum við því atkvæði gegn því.

Að öðru leyti munum við sitja hjá við fjáraukalög í heild, enda eru þau á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sem nú tekur inn í fjáraukalög vanda sem var ljós við atkvæðagreiðslu fjárlaga síðasta haust. Stjórnarandstaðan benti líka á það með málflutningi sínum og tillögum síðasta haust við afgreiðslu fjárlaga og eins röktum við það skilmerkilega í umræðum í gær varðandi fjáraukalögin.