133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[12:33]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við göngum til atkvæðagreiðslu við 2. umr. fjáraukalaga ársins 2006. Hv. stjórnarandstaða hefur bent á að ríkisstjórnarmeirihlutinn einn beri ábyrgð á því fjáraukalagafrumvarpi sem tekið er til afgreiðslu við 2. umr. Við höfum bak til að bera það. Hér er verið að skila fjáraukalögum í 2. umr. með 45 milljarða kr. afgangi sem er mjög mikill afgangur og til þess fallinn að greiða niður skuldir ríkissjóðs sem er að verða skuldlaus nú um þessar mundir. Hér er um að ræða fjármuni til framtíðar. Við erum að hætta að greiða vaxtagjöld og ríkissjóður er farinn að fá meiri tekjur en vaxtagjöld. Það er af sem áður var og til samanburðar getum við nefnt að árið 1998 vörðum við jafnmiklu í vaxtagjöld eins og til alls menntakerfisins í landinu. Hér er því um gríðarlegan viðsnúning að ræða á mjög fáum árum.

Hæstv. forseti. Verið er að gera tillögur um að auka framlög til velferðarmála um 4 milljarða kr., þar af 2 milljarða til heilbrigðismála. Hv. stjórnarandstaða tekur enga afstöðu til þeirra tillagna sem stjórnarmeirihlutinn hefur lagt fram. 1.000 milljónum verður varið til Landspítala – háskólasjúkrahúss. 120 milljónum verður varið til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og 93 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunar Austurlands, svo dæmi séu tekin.

Engar tillögur liggja fyrir frá hv. stjórnarandstöðu um hvaða stefnu stjórnarandstaðan hefur í svo veigamiklu máli sem fjáraukalög ársins 2006 eru. Reyndar kemur í ljós við atkvæðaskýringar að stjórnarandstaðan gengur ekki einu sinni í takt. Frjálslyndir hafa eina stefnu í málefnum Landsvirkjunar á meðan Vinstri grænir hafa aðra stefnu og Samfylkingin líka. Öll sú samstaða sem hv. þingmenn í stjórnarandstöðu ræddu um síðast í gær, fyrir nokkrum klukkustundum, hvað stjórnarandstaðan væri samhent á þingi — í ljós kemur í dag að hún gengur ekki í takt, nokkrum klukkustundum eftir innblásnar ræður frá hv. stjórnarandstöðu um hversu gríðarleg samstaða væri um fjárlögin af þeirra hálfu. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Stjórnarandstaðan opinberar sig í því rétt eins og hún hefur gert allt kjörtímabilið að hún getur ekki komið sér saman um hvernig eigi að afgreiða svo lítið mál sem eru fjárlög yfirstandandi árs, (Gripið fram í.) — já, svo lítið mál því stjórnarandstaðan virðist líta á málið af slíkri léttúð að tillögur koma frá hægri og vinstri í stjórnarandstöðunni en það er enginn sameiginlegur tónn í tillögunum. Það er ábyrgðarhluti sem stjórnarandstaðan á að taka til sín í þessari umræðu.