133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[12:45]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hér er þingmönnum sömuleiðis ætlað að taka ábyrgð á 5 milljarða kr. ríkisábyrgð vegna umframkostnaðar við gerð Kárahnjúkavirkjunar en gögnin sem þingmenn hafa, t.d. þeir sem hér sitja í salnum, til að byggja afstöðu sína á, eru engin. Þau eru 0,0, þau eru ekki 1 gramm, þau eru ekki til, þau eru ekki sýnileg. Það er engin greinargerð, ekki svo mikið sem minnisblað, hvað þá eitthvert yfirlit yfir það hvar verkið stendur, hvernig tekjustreymið horfir eða aðrir slíkir hlutir. Meira að segja liggur það fyrir að aðalpappírinn, orkusölusamningurinn og upplýsingar um tekjur til fyrirtækisins á komandi árum til að standa við skuldbindingar sínar er leyndarmál. Aðeins sá hluti þingmanna sem hefur fallist á að taka við þeim upplýsingum í trúnaði í iðnaðarnefnd veit hverjar þær eru. Afgangurinn í þessum sal á að greiða atkvæði um málið hafandi aldrei séð það og má ekki vita um hvað það snýst. Þetta eru óboðlegar aðstæður við atkvæðagreiðslur, frú forseti, og það er ekki vansalaust að þingið skuli taka þátt í þeim dapurlega leik, frú forseti, og ekki síst ættu forsetar þingsins að velta því fyrir sér. Er þetta í samræmi við góðar þinghefðir? (Gripið fram í.)