133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[12:49]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er í gegnum heimildargrein, sem yfirleitt er notuð meira í undantekningartilvikum, verið að fara fram á heimild ríkisins til að kaupa hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Um Landsvirkjun gilda sérstök lög þar sem kveðið er á um hver eignarhluturinn skuli vera. Eðlilegt væri að það mál kæmi þá inn í þingið með þeim hætti að breytingar kæmu á lögum ef meiri hlutanum er þá annt um að koma Landsvirkjun yfir á einkavæðingarvagninn sem meiri hlutinn stefnir að. En að ætla sér að fara með svona stórkostleg kaup eins og kaup á Landsvirkjun, hluta sveitarfélaganna í Landsvirkjun, í gegnum heimildarákvæði án þess að nokkur samningur liggi fyrir, án þess að nokkur gögn liggi fyrir um hvað verið sé að kaupa, eða forsendur fyrir verðmati o.s.frv. liggi fyrir, eru alveg forkastanleg vinnubrögð fyrir utan þann pólitíska ásetning að koma Landsvirkjun í einkavæðingu.