133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

stjórnsýsla í tengslum við stækkandi þjóðlendur.

224. mál
[12:56]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Samkvæmt lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda þjóðlendna og afrétta frá árinu 1998 fer forsætisráðherra með málefni þjóðlendna sem ekki eru lögð til annarra ráðuneyta með lögum. Leyfi forsætisráðherra þarf því til að nýta vatns- og jarðhitaréttindi, námur og önnur jarðefni innan þjóðlendu, samanber 2. mgr. 3. gr. umræddra laga. Leyfi sveitarstjórnar þarf til annars konar nýtingar þjóðlendu og ef hún varir lengur en eitt ár þarf jafnframt leyfi forsætisráðherra. Samkvæmt lögunum er forsætisráðherra heimilt að ákvarða gjald fyrir nýtingu réttinda í þjóðlendu en sú heimild hefur enn ekki verið nýtt heldur er venjulega gerður fyrirvari um að síðar kunni að verða tekin ákvörðun um gjaldtöku samanber nýlegt leyfi til Orkuveitu Reykjavíkur vegna Hellisheiðarvirkjunar.

Forsætisráðherra til ráðgjafar um þessi mál er samstarfsnefnd um málefni þjóðlendna er í eiga sæti fulltrúar forsætisráðherra, félagsmálaráðherra, iðnaðarráðherra, landbúnaðarráðherra, samgönguráðherra og umhverfisráðherra og tveir fulltrúar að auki tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í lögum þessum eru því lagðar allar meginlínur varðandi stjórnsýslu þjóðlendna. Menn sáu það fyrir þegar lögin voru sett að þarna yrði um stórt landsvæði að ræða sem þyrfti að halda utan um. Þjóðlendusvæðið fer stækkandi eftir því sem störfum óbyggðanefndar vindur fram og meginlínur í þjóðlendumálunum skýrast. Þó svo dómar Hæstaréttar í nýútkljáðum málum hafi skýrt stöðuna töluvert eru þó enn ýmis mál óútkljáð fyrir dómstólum.

Gott samstarf er milli ráðuneytisins og óbyggðanefndar um yfirfærslu svæða að úrskurðum gengnum. Unnið er að því að búa til stofnskjöl hjá viðkomandi sýslumannsembættum og fleira af því tagi. Enn sem komið er hefur ráðuneytið ekki séð ástæðu til að grípa til sérstakra ráðstafana vegna umfangs þessara mála. Einn lögfræðingur í ráðuneytinu sinnir þessu í hlutastarfi. Eftir því sem umfangið vex mun það að sjálfsögðu verða skoðað hvort þörf er á auknum mannafla eða breyttu skipulagi til að halda utan um verkefnið. Eins er fyrirsjáanlegt að móta verður stefnu um gjaldtöku fyrir nýtingu réttinda í þjóðlendum eins og þjóðlendulögin bjóða upp á.

Að því er varðar síðari spurningu hv. þingmanns um aðkomu ráðuneytisins að efnistöku úr friðlandinu við Hrafntinnusker er því til að svara að það mál gekk sína eðlilegu leið. Fyrst aflaði Þjóðleikhúsið leyfis frá Umhverfisstofnun, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi, samkvæmt 38. gr. náttúruverndarlaga frá 1999. Stofnunin taldi efnistökuna forsvaranlega út frá náttúruverndarsjónarmiðum enda voru sett um hana ströng skilyrði. Forsætisráðuneytið taldi því ekki efni til annars en gefa út leyfi samkvæmt 2. mgr. 3. gr. þjóðlendulaga, nr. 58/1998, eins og gert var.

Varðandi síðan hugsanlega efnistöku á silfurbergi í Breiðdal þá er ég ekki til svara um það efni hér.