133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

stjórnsýsla í tengslum við stækkandi þjóðlendur.

224. mál
[13:00]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna fyrri spurningarinnar sem hér var lögð fram: „Hvaða ráðstafanir hefur ráðuneytið gert varðandi breytta stjórnsýslu og aukna ábyrgð sem hlýst af sífellt stækkandi þjóðlendum?“

Ég varð nefnilega fyrir nokkrum vonbrigðum með svar hæstv. ráðherra. Ég taldi að það hlyti að vera komin af stað vinna í ráðuneytinu til að taka betur á þessum málum en gert er í lögunum. Það er t.d. þannig að gert er ráð fyrir að nýta alla fjármuni sem koma í tekjur vegna þjóðlendna við þjóðlendurnar sjálfar. Ég hef talið að við gætum átt von á verulega háum fjárhæðum vegna nýtingar á auðlindum í þjóðlendum í framtíðinni.

Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra: Telur hann ekki ástæðu til að fara að huga að þessum málum? Það getur varla gengið til lengdar að fresta öllum ákvörðunum um gjaldtöku vegna þjóðlendna.