133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

veiðiheimildir úr sameiginlegri fiskveiðiauðlind þjóðarinnar.

288. mál
[13:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það er átakanlegt að hlýða á svör hæstv. forsætisráðherra. Hann segir hér að kvótakerfið hafi sannað gildi sitt. En hann getur ekki fært nein rök fyrir því, ekki nokkur. Ég vil biðja hæstv. forsætisráðherra að reyna nú að finna einhver rök og hrekja þann málflutning sem hefur verið lagður hér inn í umræðuna.

En ég á ekki von á því að hann geti gert það, alls ekki. Það eru engin rök fyrir því að halda einhverju áfram sem hefur ekki gengið eftir. Ef við lítum bara á útfærslu landhelginnar, eins og hæstv. forsætisráðherra minntist á, hverju hún hafi skilað. Við hefðum í rauninni átt að sjá meiri afla til Íslendinga. En staðreyndin er sú að sá afli sem núna er landað á Íslandi er minni en þegar Bretar voru hér á miðunum. Kvótakerfið hefur skilað helmingi minni þorskafla en fyrir daga þess. Maður spyr sig: Ætlar forsætisráðherra ekki að færa nein rök þessu kerfi til stuðnings? Ætlar hann bara að tala í klisjum? Mér finnst kominn tími til þess að menn svari fyrir það hvers vegna sjómenn þurfi að sætta sig við kjaraskerðingu, en það þurftu þeir að líða í síðustu kjarasamningum. Ef kerfið væri að skila ávinningi væru laun sjómanna að hækka þegar fiskverð hefur stigið. Nei. Það er ekki þannig. Það er meira að segja svo að sjómenn á minnstu bátunum búa við það að hafa enga kjarasamninga.

Mér finnst að forsætisráðherra ætti að greina þjóðinni frá því hver ávinningurinn af þessu kerfi sé og hvernig þetta kerfi hafi sannað sig. En það hefur hann ekki gert í þessari umræðu. Ég skora á hann að reyna að gera það og færa einhver rök fyrir sínu máli í stað þess að lesa upp gamlar ræður (Forseti hringir.) frá LÍÚ.