133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fangabúðir Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa.

248. mál
[13:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég hef beint fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um afstöðu hennar til fangabúða Bandaríkjamanna í Guantanamo. En áður en ég held áfram að leiða málið að því vil ég nota tækifærið og hrósa hæstv. utanríkisráðherra lítillega fyrir að ætla sér að mýkja ásýnd friðargæslunnar. Mér fannst nú tími til kominn að það yrði gert, að við reyndum að mýkja ásýnd Íslands í augum umheimsins. Það er náttúrlega stórundarlegt að litla Ísland sem er herlaust skuli vera á lista yfir þjóðir sem eru stríðsfúsar og viljugar til þess að fara í árásarferðir til annarra landa. Ég vil því nota tækifærið og hæla henni.

En mig langar að vita hver afstaða hæstv. utanríkisráðherra sé til þeirra mannréttindabrota sem framin eru á Kúbu af Bandaríkjastjórn vegna þess að þetta er algjörlega óásættanlegt. Þetta er gert í nafni stríðs gegn hryðjuverkum. Ég er á því að framferði Bandaríkjamanna skapi miklu meiri hættu fyrir Vesturlönd en að í því sé nokkur vörn gegn hryðjuverkum. Þetta hefur snúist algjörlega upp í andhverfu sína. Erlendir leiðtogar hafa bent á þetta og vilja frá breytingu hjá Bandaríkjastjórn. Það má greina frá því að framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna beitti sér í þessu máli. Eins hefur utanríkisráðherra Bretlands lýst afstöðu sinni og talið þetta algerlega ólíðandi.

Það væri mjög fróðlegt að fá að heyra afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar, sérstaklega í ljósi þess að aðstoðarráðherra forsætisráðherra hefur lýst því yfir að við deilum sameiginlegri pólitískri lífsýn með Bandaríkjamönnum og þess vegna væri fróðlegt að fá afstöðu hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli.