133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fangabúðir Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa.

248. mál
[13:26]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég byrja á að segja að ég djúpt snortin vegna orða hv. þingmanns í minn garð og þakka fyrir það sem hann sagði. En sem svar við fyrirspurn hv. þingmanns vil ég segja að íslensk stjórnvöld hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að baráttan gegn hryðjuverkum megi ekki vera á kostnað mannréttinda. Hefur því sjónarmiði verið haldið víða á lofti, meðal annars á hv. Alþingi og á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Varðandi rekstur fangabúða við Guantanamo-flóa hafa íslensk stjórnvöld lagt áherslu á að Bandaríkjunum, eins og öðrum ríkjum, beri að fara í einu og öllu eftir gildandi mannúðar- og mannréttindalögum svo sem alþjóðasamningum um bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri meðferð og Genfarsamningunum sem hafa að geyma grundvallarreglur alþjóðlegra mannúðarlaga á stríðstímum og reglur um meðferð stríðsfanga.

Við höfum því miður verulegar efasemdir um að fyrirkomulag í Guantanamo standist kröfur Genfarsáttmálanna og annarra mannréttindasamninga. Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að umræddar fangabúðir hafi grafið undan trúverðugleika bandarískra stjórnvalda í mannréttindamálum.

Eins og greint hefur verið frá hér á hinu háa Alþingi hafa málefni fanga í Guantanamo verið tekin upp bæði formlega og óformlega við bandarísk stjórnvöld og íslensk stjórnvöld hafa fylgst grannt með þróun mála. Afstaða mín er sú að bandarísk stjórnvöld eigi að endurskoða starfsaðferðir sínar í þessum efnum og finna aðra betri lausn á vistun og málsmeðferð þeirra grunuðu hryðjuverkamanna sem bandarísk stjórnvöld hafa handsamað.