133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

Sundabraut.

110. mál
[13:45]
Hlusta

Björn Ingi Hrafnsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurn hans og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég held að þetta mál sýni hvers konar tafir geta orðið á framkvæmdum sem allir eru þó sammála um að verði að keyra áfram og síðan gerist ekki neitt.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að auðvitað hefur flækt málin að á síðari stigum fóru menn að ræða nýjan kost, þ.e. jarðgangakostinn, sem fram að því hafði ekki verið til umræðu. Reykjavíkurborg hafði tekið þátt í að ákveða hvaða leiðir færu í umhverfismat, þ.e. innri leið, hábrú og botngöng og þá var ákveðið að senda jarðgangakostinn ekki í umhverfismat.

Nú er hann til skoðunar. Það er nauðsynlegt að skoða það með íbúum. Við eigum eftir að fá niðurstöðuna úr því. En þetta sýnir að allar tafir í þessu máli eru með þeim hætti að það verður eiginlega ekki lengur við unað.