133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

Norðfjarðargöng.

124. mál
[14:11]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. samgönguráðherra fjallar um ný göng til Norðfjarðar eða Norðfjarðargöng og er svohljóðandi:

1. Hvenær er áætlað að hefja rannsóknarboranir vegna fyrirhugaðra Norðfjarðarganga?

2. Hvað má áætla að rannsóknarboranir og umhverfismat vegna þessara ganga taki langan tíma?

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín er sett fram í framhaldi af blaðagrein sem ég skrifaði í Morgunblaðið 31. ágúst 2006, þar sem ég fjallaði um það sem þá hét Ný Oddsskarðsgöng, sem er auðvitað rangnefni vegna þess að við erum að sjálfsögðu að tala um Norðfjarðargöng. Í greininni fór ég yfir að þau göng sem nú eru notuð voru grafin árið 1972–1977, eru 640 metrar að lengd og eru í 630 metra hæð yfir sjávarmáli, sem er eiginlega alveg ótrúlegt og óskiljanlegt hvernig þessi göng hafa verið grafin á þessum stað og svona hátt uppi í fjöllum í staðinn fyrir eins og gert er núna, að vera sem næst sjávarmáli. En þetta er barn síns tíma og vafalaust hafa menn verið að spara peninga.

Tilefnið fyrirspurnar minnar er líka að ég las í Bæjarins besta grein sem ég held að hafi verið eftir hæstv. samgönguráðherra, eða viðtal, þar sem hann fjallar um rannsóknir á göngum fyrir vestan milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Nú er það svo, virðulegi forseti, og rétt að hafa í huga að Norðfjarðargöng og Hellisheiðargöng fyrir austan eru líka í samgönguáætlun sem göng til rannsókna. Það er þess vegna sem ég spyr hæstv. ráðherra hvers vegna ekki sé byrjað að rannsaka með rannsóknarborunum og öðru á jarðgangastæðinu fyrir austan eins og gert var fyrir vestan.

Það þarf ekkert að fjalla mikið um það, virðulegi forseti, að Oddsskarðsvegur með Oddsskarðsgöngum er stórhættulegur vegur. Ég geri ekki mikinn mun á hættunni á þeim vegi og Óshlíðinni fyrir vestan sem ég er innilega sammála um að verður ekki bætt nema almennilegum jarðgöngum. En ásigkomulag Oddsskarðsvegar, með þeim 13 gráðu halla sem er þar sums staðar, í mikilli hæð og á þessu svæði sem okkur hefur sem betur fer tekist að byggja vel upp er algjörlega óásættanlegt árið 2006. Þess vegna verður að hefjast handa við ný Norðfjarðargöng sem allra fyrst og undirbúningur að því er að hefja rannsóknarboranir, frekari hönnun og umhverfismat.

Ég sagði í fyrrnefndri blaðagrein að miðað við framkvæmdahraðann sem hefur verið og að aðeins sé hægt að vinna að einum göngum í einu mætti ætla að ný Norðfjarðargöng yrðu ekki tekin í notkun fyrr en í fyrsta lagi árið 2015, og það er einfaldlega óásættanlegur tími.

Þess vegna setti ég fram þessa fyrirspurn, virðulegi forseti, og ég hygg og trúi því — en það er langur tími liðinn frá blaðagreininni til þessa svars núna — að hæstv. samgönguráðherra komi og skýri okkur frá því (Forseti hringir.) að hann hafi sett rannsóknarboranaáætlun í gang og (Forseti hringir.) að hafist verði handa (Forseti hringir.) um þær sem allra fyrst.