133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

Norðfjarðargöng.

124. mál
[14:14]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr:

„Hvenær er áætlað að hefja rannsóknarboranir vegna fyrirhugaðra Norðfjarðarganga?“

Svar mitt er svohljóðandi: Ég hef nýverið falið Vegagerðinni að hefja undirbúning rannsóknarborana vegna framkvæmda við jarðgöng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Reiknað er með að rannsóknarboranirnar verði boðnar út nú í vetur og hefjist um leið og aðstæður vegna snjóa og þess háttar leyfa, síðla vetrar eða næsta vor.

Í annan stað er spurt:

„Hvað má áætla að rannsóknarboranir og umhverfismat vegna þessara ganga taki langan tíma?“

Reikna má með að rannsóknarboranir taki tvo til þrjá mánuði. Ekki er víst að framkvæmdin þurfi að fara í umhverfismat en Skipulagsstofnun tekur ákvörðun um slík mál, þ.e. hvort framkvæmdir við jarðgöngin þurfi að fara í mat, en eins og þekkt er munu munnarnir væntanlega liggja nærri byggðinni í Eskifirði og að sjálfsögðu þarf að huga að áhrifum þess á byggðina og samgöngumannvirki o.s.frv.

Verði sú ákvörðun tekin að framkvæmdin þurfi að fara í umhverfismat, væntanlega vegna nálægðar við byggð á Eskifirði, má gera ráð fyrir að sú vinna geti tekið eitt til eitt og hálft ár. Hönnun og undirbúningur gangagerðarinnar gæti tekið rúmlega eitt ár, þ.e. umhverfismatið eitt til eitt og hálft ár, hönnun rúmlega eitt ár. Gerð útboðslýsinga og útboðið sjálft tekur að lágmarki fjóra mánuði, en skylt verður að bjóða verkið út á Evrópska efnahagssvæðinu. Að því loknu mun gerð ganganna sjálfra taka allt að tvö og hálft ár. Þarna er því nokkuð langur ferill sem ekki verður undan vikist, það þarf undirbúning og það þarf hönnun og það þarf rannsóknir og framkvæmdir áður en hægt er að opna.

Nú er það svo að Austfirðingar hafa kynnst því hvers konar bylting verður með gerð jarðganga á milli byggða. Reyðarfjarðargöngin, þ.e. göngin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, og svo aftur jarðgöngin í Almannaskarði hafa sýnt fram á hversu miklu slík samgöngubót skiptir byggðirnar. Þeim mun meiri verður því þrýstingurinn þegar íbúar sjá þær miklu breytingar sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir á samgöngukerfi landsmanna og við eigum eftir að sjá enn frekar á næstu árum árangur og afleiðingar þessara mikilvægu ákvarðana við endurbætur á samgöngukerfinu.

Ég skil mætavel að þrýst sé á að boruð verði ný jarðgöng til þess að tengja Neskaupstað betur við byggðirnar Eskifjörð og Reyðarfjörð og þetta svæði þar sem feiknarlegur uppgangur vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu stóriðju og stórvirkjana hefur haft mikil áhrif á það svæði. Það þarf að horfa á þetta allt saman. Við tókum ákvörðun um að byggja höfn til þess að sinna stóriðjusvæðinu og þessum miklu framleiðslutækjum og samgöngukerfið þarf auðvitað að fylgja eftir þannig að það er auðvitað alveg einboðið að fyrr eða seinna kemur að því að þessi jarðgöng verði boruð.

Auðvitað fæ ég mjög oft þá athugasemd — og það er kannski rétt að rifja það upp vegna þessarar fyrirspurnar og þess ágæta þingmanns sem hér spyr — að það hefði átt að byrja á Norðfjarðargöngum á undan Héðinsfjarðargöngum. Þetta er mjög vinsæl spurning sem ég fæ ekki síst á fundum á höfuðborgarsvæðinu og á Austurlandi. Þessi röð er nú engu að síður staðreynd og svo er hitt, við getum ekki gert allt í einu, það þarf fjármuni og við neyðumst til þess, rétt eins og í heimilishaldinu hjá okkur, að raða þessu öllu. Við getum ekki keypt okkur allt sem við vildum helst eða börnin okkar vildu helst fá þann sama dag og óskirnar verða til. Veruleikinn er nú svona kaldur, hæstv. forseti, við þurfum að forgangsraða og það er mikið vandaverk og ég vænti þess að eiga góðan stuðning hv. fyrirspyrjanda þegar við förum að raða (Forseti hringir.) inn í samgönguáætlunina.