133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

Norðfjarðargöng.

124. mál
[14:21]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er hreyft við mjög mikilvægu og stóru máli í samgöngumálum Austfirðinga. Staðreyndin er sú að þau göng sem núna eru á milli Eskifjarðar og Norðfjarðar eru barn síns tíma og í raun er glannalegt að keyra um þann veg, t.d. yfir vetrartímann. Sú leið sem þarna er hrellir marga vegfarendur. Því er mjög brýnt að við ráðumst í ný göng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar.

Við þingmenn Norðausturkjördæmis áttum fundi með forsvarsmönnum Fjarðabyggðar á dögunum. Þar kom mjög skýrt fram, og það var mjög þung undiralda í því að fara verður mjög fljótlega og helst í gær, eins og einhverjir orðuðu það á fundinum, í þá framkvæmd.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir að við þurfum að gera áætlun hvað þetta varðar. En ég tel að stuðningur sé innan þingsins að af þessu verki (Forseti hringir.) verði eins fljótt og verða má.