133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

umferðaröryggi á Kjalarnesi.

210. mál
[14:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Í byrjun október var haldinn fundur um umferðaröryggismál á Kjalarnesi. Þar kom í ljós að mikill urgur er í heimamönnum á Kjalarnesi vegna þess ástands sem þar hefur skapast vegna mikillar og síaukinnar umferðar.

Á síðustu átta árum hafa orðið 11 banaslys á Kjalarnesi og tæplega 200 önnur alvarleg slys. Umferðin er alltaf að þyngjast og hraðinn að aukast. Umferðin er í sjálfu sér svipuð eða meiri en um Hellisheiði og til Keflavíkur eða um Reykjanesbraut.

Á fundinum kröfðust íbúar þess að þegar yrði gripið til aðgerða til að auka umferðaröryggi. Lögð var áhersla á að Sundabrautin kæmi, en fyrir liggur, eins og fram kom í máli hæstv. samgönguráðherra fyrr í dag, að það er ekki alveg á næstunni. Aðrar hugmyndir komu fram eins og að lýsa upp veginn að Hvalfjarðargöngunum, sem er meira en sjálfsagt. Sömuleiðis að setja upp afreinar og vindbrjóta, auka löggæslu til að halda niðri hraðanum, koma fyrir hringtorgum eða mislægum gatnamótum. Allt eru þetta atriði sem skipta máli og geta komið í veg fyrir fjöldann allan af slysum.

Best væri náttúrlega að tvöfalda veginn upp að Hvalfjarðargöngum eða hafa svokallaðan tveir plús einn veg, þar sem tvær akreinar eru í aðra áttina en ein í hina og skiptast þá eftir hvar heppilegast er hverju sinni.

Mér heyrðist á hæstv. ráðherra áðan að hann hefði í kjölfar þess að ég lagði fram fyrirspurnina gripið til einhverra aðgerða. Ég vona að það sé satt og hann muni upplýsa þingheim um það á eftir.

Ég vil vekja athygli á góðum árangri sem náðst hefur í kjölfar tvöföldunar Reykjanesbrautar sem sýnir hversu miklu máli það skiptir að við reynum að skilja að umferðina úr gagnstæðum áttum þannig að minni hætta sé á árekstrum og umferðarslysum.

Ég hef á þingskjali 211 lagt fram tvær spurningar til hæstv. samgönguráðherra.

1. Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa til að auka umferðaröryggi á Vesturlandsvegi um Kjalarnes?

2. Hvenær er framkvæmda að vænta og hvenær má búast við að þeim ljúki?