133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

umferðaröryggi á Kjalarnesi.

210. mál
[14:37]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er mjög athyglisvert að heyra núna hversu þung áhersla er lögð á endurbætur í samgöngumálum, öryggismálum og það líka frá stjórnarliðum Ég tek undir þær kröfur allar. En þá er líka hollt að hafa í huga að þessi ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins undir forustu hæstv. samgönguráðherra hefur beitt sér fyrir niðurskurði á vegáætlun um milli 6 og 7 milljarða kr. af því sem lofað var fyrir síðustu kosningar, á þessu 3–4 ára tímabili. Á þessu ári voru skornar niður framkvæmdir og þeim frestað, m.a. á Vestfjörðum, í vegamálum til að hamla gegn þenslu. Og aftur á fjárlagafrumvarpi næsta árs er niðurskurður á vegáætlun ásamt loforðum um ráðstöfun á símapeningum til vegamála um 3,5 milljarða kr. Þetta er hinn dapri raunveruleiki og ég held að það sé mikilvægast af öllu að skipta um ríkisstjórn og ráðherra til að koma þessum málum á rétt ról þannig að menn standi (Forseti hringir.) a.m.k. við vegáætlun í þessum efnum.