133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

háhraðanettengingar.

147. mál
[14:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra og öðrum hv. þingmönnum fyrir málefnalega og góða umræðu um þetta mikilvæga mál, þetta er eitt af stóru byggðamálunum. Það er í sjálfu sér ánægjuefni ef tækniþróun og annað slíkt hefur haft þau áhrif að þeim sem eru utan háhraðatenginga hefur fækkað úr 20 þúsund í 6 þúsund. Við skulum ekki deila um það. Að sjálfsögðu er það gleðiefni ef þeir eru færri nú en þeir voru fyrir tveimur árum. En þúsundir Íslendinga, væntanlega á bilinu 5–10 þúsund, eru enn þá án háhraðatenginga.

Það er líka fagnaðarefni að það skuli vera í gangi sú vinna sem hæstv. ráðherra lýsir að til stofnkerfa fjarskipta eigi að verja milljarði króna þannig að árið 2009 eigi allir Íslendingar, hvort sem þeir búa á svæði þar sem markaður er fyrir hendi eða markaðsbrestur er, eins og hæstv. ráðherra gat um, eigi rétt á þessum háhraðatengingum, rétt eins og síma og rafmagni. Það er gleðiefni. En þangað til er sjálfsagt að brúa bilið án óhófs þannig að þeir landsmenn sem búa á svæðum þar sem ekki eru háhraðatengingar eigi kost á þeim í einhverri annarri mynd.

Í uppsveitum Árnessýslu, þar sem ég bý, eru ekki háhraðatengingar en þar bjóða tvö fyrirtæki upp á nokkurs konar háhraða í gegnum gervihnattasamband. Það er stopult og ófullnægjandi en það er samt sem áður himinn og haf milli þess og þess hægasta sem gerist, en það er mjög dýrt að koma þessu upp og mjög dýrt að kaupa þessa þjónustu. Ég skora á hæstv. ráðherra að leita allra leiða til að tryggja þeim svæðum sem eru án háhraða — og verða næstu þrjú árin samkvæmt því að árið 2009 verði allir Íslendingar komnir með háhraðatengingar — viðunandi lausn þangað til varanleg lausn næst í málinu og allir verði komnir með háhraðatengingar, ef sú áætlun sem hér er lýst gengur eftir. Góðir hlutir gerast stundum hægt en þeir mega ekki gerast of hægt og ekki löturhægt. En það verður að brúa bilið á meðan.