133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

myndatökur fyrir vegabréf.

123. mál
[14:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. dómsmálaráðherra er um myndatöku fyrir vegabréf og er í þremur liðum:

1. Er nauðsynlegt að teknar séu myndir á umsóknarstað af öllum umsækjendum um vegabréf?

2. Er fullnægjandi aðstaða til slíkrar myndatöku á öllum umsóknarstöðum?

3. Hver hefur kostnaðurinn verið við þetta fyrirkomulag?

Virðulegi forseti. Frá því að þessi fyrirspurn var lögð fram hefur athygli mín verið vakin á því að hæstv. dómsmálaráðherra hefur verið stefnt af Ljósmyndarafélagi Íslands vegna þessara reglna eða þeirrar framkvæmdar sem hefur orðið eftir að hæstv. dómsmálaráðherra beitti sér fyrir breytingum á lögum um vegabréf, sem voru nr. 136/1998, og voru samþykktar á Alþingi og eru núna lög nr. 72/2006. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Tekin skal stafræn mynd af umsækjanda sem varðveitt skal í vegabréfinu. Heimilt er að nota mynd sem umsækjandi leggur fram sjálfur á rafrænu formi, enda uppfylli hún kröfur sem gerðar eru til stafrænna mynda í vegabréfum.“

Virðulegi forseti. Töluvert hefur verið rætt um það í þjóðfélaginu að þessar myndatökur sýslumannsembætta séu á mjög gráu svæði og það er ástæðan fyrir því að Ljósmyndarafélag Íslands stefnir hæstv. dómsmálaráðherra. Því spyr ég: Er það virkilega svo, virðulegi forseti, að hæstv. dómsmálaráðherra beiti sér með þessari aðgerð í fyrsta lagi með broti á iðnaðarlögum, lögvörðum rétti ljósmyndara, og í öðru lagi broti á samkeppnislögum? Vegna þess að það kostar það sama að fá vegabréf hvort heldur ég kem með mynd af mér frá ljósmyndara eða hún er tekin af fulltrúa sýslumanns sem ekki hefur réttindi til ljósmyndatöku. Það eru þessi atriði, virðulegi forseti, ásamt þeim furðulega tækjabúnaði sem búið er að setja upp, sem ég held að hafi hvergi komið fram í umræðu um þessi lög að þyrftu að fara á þennan hátt.

Virðulegi forseti. Ljósmyndaiðnin eru lögvernduð atvinnuréttindi samkvæmt iðnaðarlögum og samkvæmt reglugerð nr. 940/1999, um löggiltar iðngreinar. Þar segir þar m.a., með leyfi forseta:

„Enginn má reka iðnað í atvinnuskyni á Íslandi eða í íslenskri landhelgi, nema hann hafi til þess fengið leyfi lögum þessum samkvæmt.“

Mér vitanlega eru þessir fulltrúar og það ágæta starfsfólk sýslumanna vítt og breitt um landið ekki með réttindi til ljósmyndatöku. Þess vegna er þessi fyrirspurn, virðulegi forseti, lögð fram.

Þess má líka geta í lokin, virðulegi forseti, að ríkisvaldið eða ríkissaksóknari óskaði eftir því að þessari stefnu Ljósmyndarafélag Íslands yrði vísað frá. Dómari hefur synjað þeirri ósk. Þess vegna bæti ég m.a. við þessum spurningum, virðulegi forseti, og vil fá svar við því frá hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann sé a.m.k. ekki á mjög gráu svæði að brjóta þau lög sem ég hef hér vitnað í.