133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

myndatökur fyrir vegabréf.

123. mál
[15:02]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég veit ekki hvernig þessum fyrirspurnatímum er háttað ef menn geta bætt við fyrirspurnum eftir því sem þeim hentar, miðað við það form sem er á þessum fyrirspurnum. (KLM: Er þetta eitthvað óþægilegt?) Þetta er ekki neitt óþægilegt.

Fyrsta spurningin er: „Er nauðsynlegt að teknar séu myndir á umsóknarstað af öllum umsækjendum um vegabréf?“

Nei, það er ekki nauðsynlegt. Það er hægt að láta taka myndir af sér hjá ljósmyndurum og ljósmyndarar geta sent þær með rafrænum hætti til umsóknarstaðar og það er ekki skylda að láta taka myndir af sér á umsóknarstað.

Önnur spurningin er: „Er fullnægjandi aðstaða til slíkrar myndatöku á öllum umsóknarstöðum?“

Já, slík aðstaða er fyrir hendi á öllum umsóknarstöðum.

Þriðja spurningin er: „Hver hefur kostnaðurinn verið við þetta fyrirkomulag?“

Kostnaðurinn er talinn vera innan við 2 millj. kr. og þegar litið er á þennan kostnað og honum deilt niður á vegabréfaumsóknir á þriggja ára tímabili þá lætur nærri að kostnaðurinn við hvern umsækjanda liggi á bilinu 15–20 kr.

Ég ætla ekki að tjá mig um það mál sem hefur verið höfðað fyrir héraðsdómi út af þessum ákvörðunum. Það er mál sem verður rekið fyrir dómstólunum og ríkislögmaður er með það, ekki ríkissaksóknari eins og hv. þingmaður sagði. Ég veit ekki hvaða málsástæður hann notaði til þess að fá málinu vísað frá, það er mál sem gengur sinn gang fyrir dómstólunum. Að þetta hafi ekki verið rætt áður en þetta fyrirkomulag var tekið upp er alrangt. Þetta var rætt m.a. á fundi með ljómyndurum og þeir vissu nákvæmlega hvernig þetta fyrirkomulag yrði. Það var rætt á vegum ráðuneytisins og farið yfir málið m.a. með fulltrúum frá Samtökum iðnaðarins.