133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

myndatökur fyrir vegabréf.

123. mál
[15:04]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu atriði. Ég vil bara segja að öðruvísi mér áður brá að í tíð Sjálfstæðisflokksins, sem segist vera kyndilberi frelsisins, sé málum nú svo fyrir komið að maður þurfi að fara í myndatökur hjá sýslumanni, að sýslumaðurinn sé farinn að sjá um passamyndatökur. Ég vil taka undir með hv. fyrirspyrjanda og þær spurningar sem hann velti upp og hæstv. ráðherra svaraði ekki. Ég hvet hæstv. ráðherra til að svara þeim af því að þetta er gríðarlega mikilvægt mál vegna þess að við verðum að hafa lífvænlega atvinnugrein í ljósmyndun. Þarna er auðvitað verið að kippa fótunum undan þessari atvinnugrein í landinu og þar með undan ljósmyndurum hér á landi.